Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Side 191
AnA StAnićević
190
aðferðum. Með hliðsjón af þeim aðferðum sem þau beita má flokka flest ör-
forlög út frá þremur meginþáttum sem virðast vera mikilvægastir fyrir sjálfs-
mynd þeirra og mótun. Jafnan má greina alla þrjá þættina í ímynd örforlaga,
en stundum er einn þáttur mest áberandi og meiri áhersla lögð á hann en
aðra. Þessir þrír meginþættir bjóða upp á eftirfarandi flokkun að mínu mati:
aðferðir sem snúa að fagurfræði, stefnumörkun og gjörningum. Fagurfræði-
legi þátturinn einkennist oft af „gerðu það sjálfur“ aðferð sem felst meðal
annars í handsaumuðum útgáfum, seríufagurfræði, efnisúrvali, litlum bók-
um, takmörkuðu upplagi, tölusettum eintökum og handskrifuðum bókum.
Stefnumarkandi þátturinn markast venjulega af ákveðnu efni, endurútgáfum
á „gleymdum“ þýddum bókmenntum, oft bókmenntum kvenhöfunda, út-
gáfum eftir nýja höfunda eða ný skáld, útgáfu á „litlum“ bókmenntaformum,
útgáfu undir „nýjum“ greinarheitum eða útgáfu undir dulnefni. Gjörnings-
þátturinn einkennist af útvíkkun bókmenntanna eða bókverksins, sýningum,
margmiðlun, áherslu á útgáfuhóf og gjörningum sem þeim fylgja. Þættirnir
skarast oftast og fléttast saman, enda nota flest örforlög fleiri en eina af
þessum þremur aðferðum til að staðsetja sig markvisst á jaðri menningar-
vettvangsins í andófi gegn stórum forlögum.11
Sum örforlaganna einkennast af mannaldarhugsun og vinna innan hins
vistfræðilega ramma, jafnt með tilliti til inntaks verkanna og útgáfuaðferða.
Aðgerðastefna er einkennandi fyrir örforlögin og fellur vel að ímynd þeirra.
Eitt þeirra örforlaga sem tilheyrir þessari hefð með augljósum hætti er Labo-
ratoriet for Æstetik og Økologi. Það gefur út bækur og skipuleggur sýn-
ingar sem hverfast um eitt meginþema: framtíð án manna. Sýningarnar kall-
ast „sýningarvettvangur fyrir tilurð hnatta“ (d. „en kuratorisk platform for
planetariske tilblivelser“). Starfseminni er lýst svona á vefsíðu örforlagsins:
Við vinnum með sýningar, útgáfur og samtöl á þverfaglegu sviði
tenginga á milli greina, tegunda, radda. Óháð greinategundum
sveimar þetta um í margþættum og samofnum frásögnum ólíkra
tegunda. Við reynum að halda okkur við hið torvelda með því að
kynna meira-en-mannlegar sögur, af því að við trúum á þær sem
græðandi starfsemi á særðum hnetti.12
11 Sjá nánar um aðferðir fleiri norrænna örforlaga tuttugustu og fyrstu aldar í: Ana
Stanićević, „Investigative Infrastructures. nonfiction – nordic Small Presses of the
Twenty-First Century“, A Cultural History of the Avant-garde in the Nordic Countries
after 1975, ritstjórar Tania Ørum, Camilla Skovbjerg Paldam, Laura Luise Schultz
og Benedikt Hjartarson, Leiden og Boston: Brill/Rodopi, [væntanleg 2021].
12 „Hydra“, Laboratoriet for Æstetik og Økologi, sótt 17. maí 2019 af http://www.labae.