Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Side 220
PóSTHÚMAnÍSkIR DRAuMAR
219
í sér tengingu við lífið umhverfis þær; nútímamaðurinn hefur aðlagað sig
hraða bílsins, fjarlægst sitt „náttúrulega eðli“ eða nútímavætt það í samræmi
við vélrænt umhverfið sem hann sjálfur hefur skapað. Verk Gyrðis virðast
stundum þrjóskulegt andóf gegn slíkri þróun. Þótt Sandárbókin sé ekki löng
má lesa úr viðburðaleysi hennar markvissa uppreisn gegn óþolinmæði nú-
tímalesandans, auk þess sem endurtekin tákn og stef í listamannaþríleiknum,
smásagnasafninu og ljóðasafninu gefa tilfinningu um eilífa hringrás sem
samtíminn hefur litla þolinmæði fyrir. Gönguferðir sögupersóna eru hluti
af þessari tilraun til að hægja aftur á í einveru og afturhvarfi til náttúrunnar,
en allt frá því að rómantíkin ruddi sér til rúms hafa gönguferðir verið taldar
koma á græðandi sambandi við náttúruna og þar með okkar sanna, innra
eðli.7 En þótt sögumaður og aðalpersóna Sandárbókarinnar sé listmálari sem
hefur sagt sig úr lögum við samfélagið til að búa einn í hjólhýsi, vafra um
skóginn og mála tré lætur innri friður á sér standa: „Ég hélt að trén mundu
með greinum sínum taka utan um mig, lækna mig af margskonar andlegum
kvillum. Að sjálfsögðu var mjög barnalegt að halda þetta, en satt að segja
held ég enn í þessa von.“ (Sb. 29) Sjóferðin er annars konar ferðalag í sögum
Gyrðis en gönguferðin og bílferðin, hún tengist óttaleysi, jafnvel kæruleysi,
og sátt, ekki aðeins við margbreytni lífsins og hverfulleika þess heldur við
óhjákvæmileg tengsl okkar við aðra, eins og nánar verður vikið að í síðari
hluta þessarar greinar.
1.2 Karlar, konur og skrímsli
Bílar eru birtingarmynd hins hraða nútímalífs sem er hafnað í þeim bókum
sem hér eru til umfjöllunar. Tvíræðari afstaða er tekin til mögulegra sam-
skipta við konur. Þær virðist stundum vekja veika von dapurra karlanna um
að komast í tengsl við lífið, við aðra, en eru þó yfirleitt utan seilingar; fjarver-
andi, fjarlægar, mögulega fjandsamlegar og jafnvel hættulegar. Rauðklædda
konan sem málarinn í Sandárbókinni rekst reglulega á í gönguferðum sínum
en nær yfirleitt aðeins að horfa á úr fjarlægð, ýmist vegna eigin framtaks-
leysis eða vegna þess að hún lætur sig hverfa, setur tóninn fyrir þríleikinn
hvað varðar samskipti kynjanna. Frá fyrstu sýn gerir málarinn hana að sjón-
rænu viðfangi; hún er fyrst í rauðu og seinna nakin, í samræmi við listhefð-
ina, tengd losta, lífi, hita, suðri, hinu dýrslega; hann sér hana fyrir sér „stygga
einsog hind úr suðlægari skógum“ (Sb. 63). Hefðin boðar að málarar noti
7 Sjá umfjöllun Sveins Yngva Egilssonar um gönguferðir í verkum Gyrðis í „Göngu-
skáldið“, Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar, ritstjóri
Magnús Sigurðsson, Akranes: uppheimar, 2010, bls. 99–118, hér bls. 104.