Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Page 233
AuðuR AðAlSTEInSDóTTIR
232
saga að Hunter S. Thompson hafi átt það til að fara með ritvélina sína út í
garð og skjóta á hana. Hann skaut svo á endanum sjálfan sig.38
Sögumaðurinn í Suðurglugganum lítur á sig sem fulltrúa eldri tíma og
streitist á móti nýrri tækni. En aftenging hans frá heiminum fyrir utan, frá
framrás tímans, breytingum og tækniþróun, verður síst til að efla sambandið
við gömlu, traustu ritvélina: „Höfuðið á mér er algerlega tómt. Þegar ég
horfi niður á svarta ritvélina finnst mér hún vera óvinveitt lífvera, einhvers-
konar eiturkuðungur.“ (Sg. 23) lýsingar hans á hugarástandi sínu haldast
gjarnan í hendur við lýsingar á ritvélinni, líkt og að með því að stara á hana
eða snerta geti hann komist í snertingu við sjálfan sig. Það sem við blasir
verður hins vegar æ ókunnuglegra og undir lokin er svo komið að ritvélin,
það næsta sem kemst huga hans, er orðin tæki sem hann kann ekki að nota:
[…] snögglega leið mér einsog ritvélin væri stjórnborð í flugvél
hátt á lofti, og ég ekki með neinskonar flugpróf. Maður fær ekki
skírteini út á hugarflug, slíkir flugtímar fást ekki metnir. Ég hef
lengi stundað blindflug á þessari vél próflaus, en það verður sífellt
áhættusamara. (Sg. 101)
Eins og ráða má af tilvitnunum hér að framan ganga skáldskaparskrif sögu-
mannsins í Suðurglugganum ekki sérlega vel. Sögupersónur neita að vakna til
lífs og undir lokin er sögumaðurinn farinn að hamra jafnóðum x yfir hvern
staf sem hann skrifar. Sem er reyndar óþarfi, því stafirnir sjást varla lengur
á pappírnum.
Hinir dofnandi stafir eiga sér eðlilega skýringu. Þeir sem þrjóskast við
að skipta gömlu ritvélunum út fyrir tölvu standa fyrr eða síðar frammi fyrir
þeim vanda að blekið eyðist upp af ritvélarborðanum og að afar erfitt er að
verða sér úti um nýjan. En það dugar rithöfundinum í Suðurglugganum ekki
að hverfa til enn eldri tækni og taka upp penna þegar ritvélin klikkar. Hann
reynist engu betra tæki til að ná sambandi við sjálfið og stafirnir hverfa þar
líka:
Ég er alltaf að týna minnisbókunum sem ég krota í. Svo finn ég
þær í vösum regnkápunnar, eða ofan í náttborðsskúffunni, en það
einkennilega er að síður þeirra eru alltaf auðar þegar ég rekst á þær,
þó mig minni endilega að ég hafi verið búinn að krota heilmikið í
þær. (Sg. 29)
38 Sama rit, bls. 16.