Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Side 253
AuðuR AðAlSTEInSDóTTIR
252
það bara næsta árstíð: alltaf ný árstíð, áfram endalaust þar til öllu er lokið og
engin árstíð meir, ekki einusinni í Víti.“ (Sg. 68) Í fyrri hluta greinarinnar var
vikið að viðburðaleysi bókanna í þríleiknum sem markvissri uppreisn gegn
óþolinmæði nútímalesandans, auk þess sem endurtekin tákn og stef gefa til-
finningu um eilífa hringrás sem samtíminn hefur litla þolinmæði fyrir. Hin
eilífa umbreyting náttúrunnar er þó einnig hinn raunverulegi drifkraftur í
framvindu þessara þriggja verka, eins og meðal annars má merkja af upp-
byggingu þeirra. Þær hefjast allar um vor eða snemmsumars og Sandárbókin
og Suðurglugginn enda um vetur en Sorgarmarsinn í sumarlok. Þar sem sögu-
hetjurnar fylgjast allar náið með náttúrunni í kringum sig og reyna að fanga
hana í verkum sínum verður framvinda árstíðanna mjög áþreifanleg í fyrstu
persónu frásögn þeirra og eina raunverulega tenging þeirra við umheiminn,
við framrás lífsins. Enda hefur sambandi þeirra við annað fólk og þá fyrst
og fremst konur, að einhverju leyti verið fórnað fyrir þessa nánd við nátt-
úruna. Í fyrri hlutanum var einnig minnst á tengsl árstíðaskiptanna við hvarf
sögupersónanna úr þessum heimi, með megináherslu á haustið með sinni
hnignun og yfirvofandi dauða.88 Framvindan felst sem sagt, á þversagna-
kenndan hátt, í þverrandi lífskrafti og stöðnun, hægfara hreyfingu í átt til
dauðans.
Hér er rétt að minna á hina þrjá ferðamáta í smásagnasafninu Milli
trjánna: gönguferðir, bílferðir og sjóferðir. Eins og fram hefur komið tengist
sjóferðin þar óttaleysi við myrkrið og tómið og sátt við léttvægi lífsins. Í
smásögunni „Vitjun“ ríkir nánast dularfullt kæruleysi þar sem héraðslæknir
storkar örlögunum með því að lesa alltaf ódysseifskviðu undir stýri. Síðasta
bílferð hans af því tagi ber huga hans alla leið að miklum „flota af seglskip-
um“89 og þannig breytir hirðuleysi hans gagnvart lífi og dauða bílferðinni í
hálfgert sjóferðalag. Í síðustu bók þríleiksins upplifir tónsmiðurinn svipaðar
aðstæður:
Fyrirvaralaust kemur laglína upp í kollinn á mér undir stýri, ég
fálma ofan í brjóstvasann og legg vasakompuna opna í framsætið
við hliðina á mér, reyni að krota niður fáeinar nótur meðan ég stýri
með annarri hendi og hef auga með veginum þess á milli. (Sm. 36)
88 Í Lifandi vatninu – – – eftir Jakobínu Sigurðardóttur, þar sem áin á bernskuslóðum
verður „lifandi vatnið“ í huga sögupersónunnar Péturs, gerir hann einmitt þá grund-
vallaruppgötvun sem barn að í þessari á er hægt að drukkna; að þetta lifandi vatn
felur ávallt dauðann í sér. Bæjadalsáin í Lifandi vatninu – – – er því tákn upprunans
sem ávallt felur í sér endinn, á sama hátt og vorið felur þegar í sér haustið í Suður-
glugganum.
89 Gyrðir Elíasson, „Vitjun“, Milli trjánna, Akranes: uppheimar, 2009, bls. 157.