Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 260
PóSTHÚMAnÍSkIR DRAuMAR
259
– ekkert orð – við mig – mig – […].“105 Afleiðingin er sú að hjónin verða eins
og fangaverðir hvors annars í innantómri gerviveröld neyslusamfélagsins.
Val Plumwood hélt því fram á tíunda áratugnum (1993) að vistfemínískt
sjónarhorn væri tæki til að afhjúpa hvernig kúgandi kerfi, svo sem kynþátta-
hyggja, kynjamisrétti eða arðrán auðlinda, eru samfléttuð og styðja hvert
annað – og ógna náttúrunni og vistkerfinu.106 David Abram byggir að ein-
hverju leyti á því sjónarmiði þegar hann bendir á að hugmyndir um manninn
sem kórónu sköpunarverksins hafi verið notaðar til að réttlæta ekki bara yfir-
gang og ofbeldi gagnvart öðrum lífverum heldur öðru fólki, til dæmis öðr-
um þjóðum, kynþáttum og „hinu“ kyninu.107 Ef litið er á grunnhugmyndir
stóuspekinnar þá samrýmast þær femínískri hugmyndafræði og forn-grískir
iðkendur hennar gerðu jafnan ráð fyrir því að konur og karlar hefðu sömu
eiginleika til að þróa skynsemi sína. Hins vegar hrófluðu þeir ekki við hefð-
bundnum hugmyndum um náttúrulegt hlutverk konunnar innan heimilis
og undir stjórn karla.108 kyn myndar grundvallartvístæðu tvíhyggjunnar sem
skilur á milli okkar og annarra og því er mikilvægt, þegar leitast er við að
nýta stóuspeki í umhverfisorðræðu samtímans, ekki síst ef það er gert á póst-
húmanískum forsendum eins og merkja má í þríleik Gyrðis, að gera það út
frá sjónarhorni femínískrar vistrýni (e. feminist ecocriticism) sem „hrekur af-
lóga hlutgervingu náttúrunnar, kvenna, efnis, líkamans og annarra tegunda,
og opnar nýja sýn á vistkerfið með því að rannsaka sameiginlega dýnamík
og gegndræpi mennskra og ómennskra líkama og náttúru, og grafa undan
annarleika (e. otherness) sem byggist á tvíhyggju vestrænnar menningar“.109
Hér að framan hefur verið minnst á rauða litinn sem tákn lífskrafts sem
sambönd við konur færa inn í líf listamannanna þriggja, og þá merkingu
litarins má yfirfæra á tilfinningaleg tengsl þeirra við annað í umhverfinu sem
samkvæmt hefðinni gegnir hlutverki annars. Það segir sína sögu að rauði
liturinn er af takmörkuðu magni í lífi þeirra en verður um leið æpandi mitt
í allri grámóskunni, til dæmis hárauðir eldhússtólar í húsi þar sem annars er
„allt í dempuðum litum“ (Sm. 15). Það sem tengist rauða litnum er einnig
105 Sama rit, bls. 184.
106 Val Plumwood, Feminism and the Mastery of Nature, london og new York: Rout-
ledge, 1993.
107 David Abram, The Spell of the Sensuous, bls. 47–49.
108 Scott Aikin og Emily McGill-Rutherford, „Stoicism, Feminism and Autonomy“,
Symposion 1: 1/2014, bls. 9–22, sótt 9. júní 2020 af https://philarchive.org/archive/
POEEOT.
109 Serpil Oppermann, „Feminist Ecocriticism. The new Ecofeminist Settlement“,
Feminismo/s 22, 2013, bls. 65–88, hér bls. 68.