Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Qupperneq 52
„HANN VISSI HVAð VAR VeRuLeIKI OG HVAð eKKI“
57
verk Henry James endurspegla áhuga höfundarins á barnæskunni, sem feli í sér
tvíþætta merkingu. Þá sé æskan upprunastaður lyganna sem koma til með að
stjórna framtíðarþroska einstaklingsins en sé sömuleiðis læst hvelfing sem hefur
að geyma hið ómeðvitaða og bælda innra með honum.65
Af þessu má sjá að bæling er rauður þráður í kenningum um hið gotneska
barn sem gjarnan er talið varpa ljósi á óþægilegan sannleika innan menningar-
innar. ókennileikinn sem börn í gotneskum frásögnum vekja upp er kominn til
vegna þess að þau eru táknræn fyrir vitneskjuna sem hinir fullorðnu hafa bælt
niður og, meðvitað og ómeðvitað, ákveðið að leiða hjá sér. Börn eru því hin
sjáandi í gotneskum skáldskap á meðan aðrar sögupersónur eru blindar á það
sem amar að.66 Þetta má sjá með skýrum hætti í verki Jökuls og er blindni um-
sjáraðila barnanna ákveðið leiðarstef í gegnum söguna. eiginleg blindni Gunn-
laugar, ömmu Ísaks, er eitt skýrasta dæmið. Fyrstu kynni lesenda af henni eru í
þvottahúsinu þar sem hún verður á vegi þeirra Brynju og Nonna:
Hún sneri sér við og þreifaði fyrir sér með hvítum staf. Nonni og Brynja
störðu framan í hana skelfingu lostin. Andlit hennar var krumpað og
alsett örum, líkt og hún hefði brennst, og augun í henni voru tóm og
þakin hvítri móðu. Nonni náði naumlega að kæfa óp sem hann fann
vaxa innra með sér (17).
Ásýnd Gunnlaugar vekur upp skelfingu í huga barnanna enda hefur bælingin
sem blindnin stendur fyrir hræðilegar afleiðingar fyrir þau. Rétt áður en mestu
hörmungar Húmdala ríða yfir rekur Gunnlaug, sem reynist vera móðuramma
65 David Punter, The Literature of Terror. A History of Gothic Fictions from 1765 to the Present Day.
Volume 2. The Modern Gothic, London: Longman, 1996, bls. 48. Þetta rímar við kenningar
Freud sem taldi bælingu óæskilegra hvata eiga sér stað á mótunarárum einstaklingsins,
frá barnæsku fram að hátindi kynþroskans. Sigmund Freud, Um sálgreiningu, bls. 92.
66 Innan fræða sálgreiningar er blindni táknræn fyrir bælingu hins óbærilega. Freud vísaði
í þessum efnum gjarnan til grísku goðsagnarinnar um Ödípús konung sem Forn-Grikk-
inn Sófókles gerði skil í samnefndum harmleik. Ödípús er dæmdur af örlögunum til að
drepa eigin föður og giftast móður sinni en hann reynir þó allt til þess að koma í veg fyrir
það. Forspáin rætist þó á endanum honum óafvitandi og þegar Ödípús kemst að hinu
sanna refsar hann sjálfum sér með því að blinda sig. Freud taldi leikverk Sófóklesar fela í
sér líkindi við sálgreiningu þar sem sannleikurinn kemur smátt og smátt í ljós þar til hinn
óbærilegi verknaður er afhjúpaður, ásamt hvötunum sem búa honum að baki. Sigmund
Freud, Inngangsfyrirlestrar um sálkönnun, bls. 356. Blindan verður því táknræn fyrir það að
einstaklingurinn vill ekki horfast í augu við eigin bælingu. „Enda þótt maður hafi bælt
illar hvatir sínar niður í dulvitund og vildi gjarnan geta sagt sjálfum sér að hann bæri ekki
ábyrgð á þeim, hlýtur hann engu að síður að finna til þessarar ábyrgðar sem sektarkennd
án þess að vita ástæðu hennar.“ Sama rit, bls. 357.