Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Side 184
FYRIR HVERjA ERu FRÆðIn?
189
er ágætur útgangspunktur (en ég mun reyndar slípa hann aðeins til síðar meir;
sjá §4–6). næsta skref er að átta sig betur á því hverjar þessar afurðir eru. Í
grófum dráttum held ég að þeim megi skipta í tvo flokka.
Annars vegar geta fræðin af sér ýmis efnisleg gæði, tækninýjungar og annað
sem á að auðvelda okkur lífið með einum hætti eða öðrum. Þetta geta bæði
verið áþreifanlegir hlutir eins og tölvur, bílar og bóluefni, sem og óáþreifan-
legri fyrirbæri eins og tæknifrjóvganir og kvíðameðferðir. Þetta eru gæði sem eru
í eðli sínu takmörkuð og sem ganga kaupum og sölum í flestum samfélögum,
þótt sum þeirra séu líka fjármögnuð með skattpeningum og veitt af opinberum
aðilum. Aðgengi okkar að gæðum af þessu tagi stjórnast þess vegna að mjög
miklu leyti af fjárhag okkar og spurningin um hvernig slíkum gæðum skuli skipt
á milli okkar er því í raun bara angi af stærri hugmyndafræðilegri spurningu um
hvernig skipta skuli efnislegum gæðum á milli fólks.
Hins vegar geta fræðin líka af sér annars konar gæði, sem kalla má vitsmunaleg
gæði. Þetta eru þau gæði sem felast í því að búa yfir einhverjum upplýsingum,
vita eitthvað, skilja eitthvað – eða eitthvað af þessu tagi. Allt frá dögum Platons
hefur verið umdeilt innan heimspekinnar hvers konar ástand felur raunverulega
í sér vitsmunaleg gæði – eða hvaða ástand felur í sér mestu vitsmunalegu gæðin.5
Sumir segja til dæmis að það sem máli skipti sé að höndla sannleikann; aðrir halda
því fram að þekking skipti mestu máli; og enn aðrir færa rök fyrir því að sannleikur
og þekking séu í sjálfu sér gagnslaus nema maður hafi einhvers konar skilning á
viðfangsefninu sem um er að ræða.6 En þessar deilur um hvort hin vitsmuna-
legu gæði sem mestu skipti sé sannleikur, þekking eða skilningur – eða mögulega
eitthvað allt annað – skipta okkur litlu máli hér. Til einföldunar ætla ég því að
einblína á þekkingu frekar en önnur vitsmunaleg gæði sem fræðin geta af sér.7
5 Sjá einkum Platon, Menón, þýðandi Sveinbjörn Egilsson, Reykjavík: Hið íslenska bók-
menntafélag, 1985. Gagnlegar yfirlitsgreinar um nýlegri umræður um efnið má finna hjá
Dennis Whitcomb, „Epistemic Value“, The Continuum Companion to Epistemology, ritstjóri
Andrew Cullison, london: Continuum, 2012, bls. 270–287 og Duncan Pritchard, john
Turri og j. Adam Carter, „The Value of Knowledge“, Stanford Encyclopedia of Philosophy,
ritstjórar Edward n. Zalta og uri nodelman, 2022, sótt 6. apríl 2023 af https://plato.
stanford.edu/archives/fall2022/entries/knowledge-value.
6 Hér þyrfti líka að sjálfsögðu að tilgreina hvaða merkingu við leggjum í þessi hugtök,
til dæmis hvort þekking sé sönn, réttlætt skoðun eða eitthvað annað. Sjá til dæmis Ed-
mund Gettier, „Er sönn réttlætt skoðun þekking?“, þýðandi Geir Þ. Þórarinsson, Hugur
18/2006, bls. 71–73.
7 Í mínum huga felst í þessu talsverð einföldun, kannski jafnvel ofeinföldun, því ég er
einn af þeim sem líta svo á að skilningur sé það vitsmunaástand sem felur í sér mestu
vitsmunalegu gæðin og að í raun séu engin sérstök vitsmunaleg gæði í því fólgin að hafa
þekkingu umfram það að búa yfir sannri skoðun og rökstuðningi fyrir þeim. Sjá til dæmis
jonathan l. Kvanvig, The Value of Knowledge and the Pursuit of Understanding, Cambridge: