Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 187
FInnuR DEllSén
192
ljóst að eitthvað hefur eigingildi. Ef X hefur ekki eigingildi þá hlýtur X að hafa
nytjagildi (annars hefði X ekkert gildi). En ekkert getur haft nytjagildi nema það
færi okkur eitthvað annað, köllum það Y, sem hefur gildi. Og nú getum við spurt,
aftur, hvort Y hafi eigingildi eða nytjagildi, rétt eins og við gerðum fyrir X. Og
þá erum við komin aftur af stað. Eins og sjá má getur þessi runa aðeins endað í
einhverju sem hefur eigingildi, eða gildi í sjálfu sér, og því virðist sem slíkt verði
að vera til ef nokkuð á að hafa gildi.11
Hvers konar gildi hefur þekking? Eigingildi eða nytjagildi? ljóst er að þekk-
ing hefur oft umtalsvert nytjagildi, því í krafti þekkingar getum við gjarnan náð
þeim markmiðum sem við setjum okkur – sem gera má ráð fyrir að hafi umtals-
vert gildi í flestum tilvikum. Ef ég veit til dæmis hvar kökukrúsin er falin, og ef
það færir mér ánægju að borða kökurnar í krúsinni, og ef það að vera ánægður
hefur gildi (hvort heldur sem er eigingildi eða nytjagildi), þá hefur þekkingin
á staðsetningu kökukrúsarinnar gildi í krafti þess sem þessi þekking færir mér.
Fræðileg þekking hefur að sama skapi umtalsvert nytjagildi, meðal annars í krafti
þess að færa okkur ýmis efnisleg gæði eins og nefnt var hér að ofan (sjá §2), en
líka í krafti þess að mynda undirstöðurnar fyrir aðrar fræðilegar rannsóknir sem
geta svo af sér enn meiri þekkingu (sjá §7).
En þótt þekking hafi þannig nytjagildi þýðir það ekki að þekking geti ekki
líka haft eigingildi. Annað útilokar nefnilega ekki hitt. Þegar vel er að gáð virðist
ýmislegt benda til þess að þekking hafi einmitt eigingildi – að minnsta kosti í
mörgum tilvikum, þótt á því séu líka undantekningar (sjá §5). Ef við ímyndum
okkur til dæmis að fræðilegar uppgötvanir eins og Pýþagórasarreglan, afstæðis-
kenning Einsteins eða náttúruvalskenning Darwins hefðu ekkert nytjagildi fyrir
okkur – að þær gerðu líf okkar ekki auðveldara með nokkrum hætti – þá virðist
samt erfitt að neita því að þær séu einhvers virði. Ef svo er þá hljóta þær að hafa
eigingildi, mögulega til viðbótar við það nytjagildi sem þær hafa í reynd. Sumar
af helstu rannsóknarspurningum fræðanna snúast auk þess um fyrirbæri sem
erfitt er að sjá að hafi mikið nytjagildi. Til dæmis held ég að það hafi varla mikið
nytjagildi að vita hvort til séu fleiri víddir en við getum skynjað eða hvernig og
hvers vegna mannskepnan varð til sem sjálfstæð dýrategund.12 Ef það að vita
11 Þessi rökfærsla gerir að vísu ráð fyrir því að ekki geti verið til óendanlega langar keðjur
hluta sem einungis hafa nytjagildi í krafti nytjagilda hluta sem koma síðar í keðjunni.
ég ætla ekki að rökstyðja þessa forsendu að öðru leyti en því að benda á að ólíklegt er
að til séu óendanlega margir hlutir (hvað þá óendanlega margir hlutir með nytjagildi).
Almennt er talið að alheimurinn sé endanlega stór (þótt hann fari sífellt stækkandi) og að
samanlagður massi hans sé sömuleiðis endanlegur.
12 Í einhverjum tilvikum getur nytjagildi þekkingar jafnvel verið neikvætt, svo sem þegar
þekkingin veldur okkur fyrst og fremst óþægindum eða áhyggjum. Dæmi um það gæti