Víðförli - 01.11.1954, Blaðsíða 74
72
VÍÐFÖRLI
því að játa hann sem sinn Guð. Játning trúarinnar er m.ö.o.
viðnrkenning þakkarskuldar en engin bókfræði,
En slík persónuleg trúarjátning sem þessi felur auðsjá-
anlega í sér staðreynd, sem snertir alla menn og allt, sem
er. I öllu, sem fyrir augu ber, sér trúmaðurinn þennan sama
veruleik: Guð, faðirinn almáttugi, hefur gefið því tilveru,
hann er lífið í öllu, sem lifir, veruleikinn í öllu, sem er til.
Sá, sem ekki hlýðnast honum, þiggur eigi að síður krafta
sína úr hendi hans og leyfi frjálsræðisins til þess að fara
sína braut að vissu marki. Handan skynheimsins og lífsins
er ekki dulardjúp vitundarlausrar orkustöðvar, heldur vak-
andi kærleiksvitund, markvís gæzka og miskunn. Þess vegna
er tilgangur í tilverunni, hinu stærsta sem því smæsta. ekk-
ert er út í bláinn, ekkert blind hending. Það er meining í
því, að þú ert til, þessi ævi stuttrar stundar býr yfir merk-
ingu og miðar að marki, sem Guð geymir í huga sér og leit-
ast við að laða þig til þess að lúta af fúsum og frjálsum vilja.
„Guð hefur skapað mig,“ segir Lúther. Ekki var honum
ókunnugt um, hvernig fóstur myndast í móðurlífi. Hann
vissi alveg eins vel og nútímamenn, að þar hafði hann orðið
til af s.n. náttúrlegri orsök, lifað þar tiltekið þróunarskeið,
unz hann fæddist. Hann vissi gjörla, að í þessu var út af
fyrir sig ekkert „yfirnáttúrlegt“, það var hægt að rekja lík-
amlega tilveru hans á fræðilega vísu um ákveðinn þróunar-
feril til upphaflegrar, alkunnrar s.n. „orsakar“. Honum
kom ekki í hug, að Guð hefði neins staðar gripið inn í þessa
atburðarás með óvenjulegum hætti til þess að fylla út í
lykkjuföll orsakafestinnar eða rjúfa náttúrunnar venjulega
gang. Að því er snertir þessa hlið málsins hefðu nútíma-
vísindi ekki getað upplýst hann um neitt, sem máli skiptir.
Og engin framtíðarvísindi heldur. Og sama má segja um