Réttur - 01.01.1955, Side 60
60
RÉTTUR
væri leyfilegt til framdráttar góðum málstað. Á hinn bóginn er
svo kenning þeirra, sem staðhæfa að aldrei megi beita hörðu gegn
ofbeldi og níðingsverkum eða rísa gegn því illa. Hvorutveggju
viðhorfin eru jafn ófrjó og siðlítil ódíalektisk og fjarri skilningi
marxismans. Það er litið á tæki og takmark sem góð eða ill í sjálfu
sér, einangruð hvort fráf öðru — og frá manninum. Tæki eða
leið er takmark, áður en starfið eða förin hefst, og takmarkið, sem
að er stefnt, verður einnig tæki eða leið, þegar því er náð, rétt
eins og afleiðingin er komin af orsök og verður síðan orsök
nýrra afleiðinga. Það er ekki hægt að gefa neinar algildar
reglur um takmark og leiðir, nema hvað leiðin verður að Jiggja
í ákvörðunarstað, að öðru leyti hlýtur leiðarvalið að fara eftir
aðstæðum og mati hverju sinni.
Raunhæf og tímabær siðgæðiskenning hlýtur að byggjast á
díalektiskum skilningi á lögmálum framvindunnar og sambandi
einstaklings og heildar. Þær borgaralegu kenningar, sem reynt
hafa að skýra siðgæðið á vitrænan hátt hafa að jafnaði steytt á
því skeri. Stundum hafa þær gert umhverfið allsráðandi um mótun
einstaklingsins og þá veizt erfitt að skýra, hvernig einstakling-
arnir gætu breytt þessum aðstæðum (Helvetius o. fl.). Þá hafa
þær og tíðast gengið út frá einstaklingnum, en tengslin við sam-
félagið komið eftir á og hvorki orðið djúpstæð, lifandi né gagn-
kvæm (Bentham og nytsemishyggjan).
Það er skilningsskortur af þessu tagi, sem hefur hrakið sið-
fræðingana ýmist í hreina dulýðgi eða firrukennda og ófrjóa
afstöðu, þar sem annaðhvort hugarfarið eða verkin eru gerð að
algildum siðgæðismælikvarða — og vit, starf og hjartalag skilin að.
Marxisminn opnar hér nýjar leiðir með þjóðfélagsskilningi sín-
um og söguskoðun. Hann lítur á einstaklingana í gagnkvæmum
samleik þeirra og tengslum við þjóðfélagið — sem skapara þess
og sköpunarverk. Mennirnir eru svo sem Marx víkur að í 2.
thesu sinni um Feuerbach, bæði þolendur og gerendur í senn, þeir
eru mótaðir af aðstæðunum og móta aðstæðurnar, eru aldir upp
og sjálfir uppalendur. Eftir skilningi marxismans er maðurinn
hvorttveggja í einu takmarkið og leiðin, tilgangurinn og tækið.