Andvari - 01.01.2003, Blaðsíða 156
154
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
ANDVARI
þar sem ég þekki eitthvað til bókmenntagagnrýni og bókmenntasögu -
einkum á ensku, þýsku og frönsku - tel ég að þættir „Heljar“ væru hvergi
taldir til prósaljóða - núorðið að minnstakosti. I ættlandi bókmenntagreinar-
innar, Frakklandi, hafa verið skrifuð um hana tvö höfuðrit.9 I báðum er lögð
rík áhersla á að skilgreina einkenni hennar og afmarka hana - frá ljóðrænum
prósa annarsvegar og stuttum sögum (anekdótum, atvikssögum) hinsvegar.
Einu andmælin gegn ofangreindri flokkun sem ég man eftir í svip, þó fleiri
kunni að hafa látið í ljósi svipaða skoðun, eru eftirfarandi orð Einars Braga:
„Hitt finnst mér nú orka tvímælis, að Hel geti talizt ljóðabrot í lausu máli“.10
Og hann bætir við: „Ljóðskáld yrkja ekki ljóð vegna þess, að þau hafi ekki
tíma til að rita sögu, heldur af því að þau skynja mannlífið með öðrum hætti
en sagnaskáld: í ljóðmyndum en ekki sem sögu, rás ytri atvika og innri þró-
unar.“ Ég er sammála þessu mati, ljóð eru annað en söguþættir þó ljóðrænir
séu. Mjög skýr eðlismunur er á textum einsog í „Hel“ og prósaljóðum Sig-
fúsar Daðasonar eða Stefáns Harðar Grímssonar. Ég leyfi mér að kalla fyrri
tegundina ljóðrænan prósa (Ijóðræna prósaþætti) til aðgreiningar frá prósa-
ljóðum hinna síðari. Textar Jakobs Smára í „Ur djúpinu“ eru einnig fjarska
ólíkir prósaljóðum tvímenninganna, en þeir eru sjálfstæðir, skýrt afmarkaðir
hver frá öðrum, flestir stuttir, og mér sýnist eðlilegt að telja þá Ijóð frekar en
þætti.
Hvað þá um Flugur Jóns Thoroddsen sem út komu árið 1922 og sam-
komulag virðist um að kalla fyrstu bók með prósaljóðum á íslensku? Einir
sjö bókmenntafræðingar að minnstakosti hafa tjáð sig í þá veru." Sjálfur tal-
aði höfundurinn ekki um Ijóð heldur „flugur“. Orðalag hans í „Formála“ gæti
þó bent til að hann hafi litið á þær sem ljóð: „Þakkið þið guði fyrir, að ég
færði ykkur hvorki í lífstykki rímsins né vaðmálspils sögunnar." Svo þarf
samt ekki að vera því hann notaði orðið víðar um ,hugmyndir‘ sem hann fann
þörf hjá sér til að festa á blað. Þannig segir hann vini sínum frá grein sem
hann hafi skrifað:
Ég hef varla frið fyrir pólitískum flugum, þær ásækja mig, og heili minn er því miður
eins og flugnapappír. Ég sé ekkert annað ráð vænna, en að fara að losa um þær elztu og
reyndustu og lofa þeim að fljúga.12
Reyndar notaði hann heitið ,ljóð í óbundnu máli‘ í ritdómi um ljóð annars
manns. Það heiti hefur sennilega verið algengast á þessum árum, og um þá
tegund texta sem ég kýs að kalla Ijóðræna prósaþætti.13 Orðalagið í ritdóm-
inum er ákaflega fróðlegt:
Ljóð í óbundnu máli. Algjörlega laust við höfuðgalla þessarar skáldskapartegundar:
orðatildur, væmni, tilgerð og hugleiðingar. Bendir það á góðan smekk höfundar.14