Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 28
GRIPLA26
auðskilið. Úr Runhendu er tekið allt sem varðveitt er, úr Magnússkviðu og
Sigurðarbálki fyrstu vísurnar.
Hér skal skotið inn einni leiðréttingu við ranghermi varðandi Snorra-Eddu:
Jón Helgason viðrar þá tilgátu „að einhver dæmi úr kvæðum fyrri skálda sem
standa í höfuðgerðum Snorra Eddu hafi ekki verið í frumgerð hennar“ (bls
174). Þetta hafa hörgabrjótar stundum tuggið upp, hnykkja á því að tilvitn-
anirnar til Egils séu aðeins í sumum handritum Eddu og geti því verið síðari
viðbætur. En þessi atlaga þeirra stenst alls ekki. Ef tilvitnanir til Egils vantar í
einhver handrit Eddu þá er ævinlega um að ræða heila kafla sem vantar í
viðkomandi handrit. Hvernig í ósköpunum hefðu tilvitnanirnar í Eddu þá átt
að koma fram í þessum handritum? Handritageymd Snorra-Eddu bendir ekki
til neins annars en að tilvitnanirnar til Egils hafi verið í þeim öllum sem gildi
hafa, bæði heillegum handritum og brotum.
10
Enn er eftir að geta eins merkilegs vitnisburðar um kveðskap Egils, en það er
Þriðja málfræðiritgerðin, einnig nefnd Málskrúðsfræði, eftir Ólaf hvítaskáld
Þórðarson. Ólafur var bróðursonur Snorra og honum mjög handgenginn, og í
riti sínu vitnar hann oft í Háttatal Snorra. En hann vitnar einnig í fjölmörg
önnur skáld, nafngreind og ónafngreind, meðal annars nokkrum sinnum í Egil
Skallagrímsson („sem Egill kvað“). Flestar eru tilvitnanirnar í Arinbjarnar-
kviðu, og er talið að þarna séu varðveittar tvær síðustu vísur kvæðisins sem
ella hefðu glatast. Einnig vitnar Ólafur í hina tvíræðu ellivísu Egils um „bergis
fótar bor“, og loks í tvö vísuorð slitin úr samhengi, torskilin og líklega afbök-
uð, sem hvergi eru varðveitt annarsstaðar (Den tredje og den fjærde gram-
matiske afhandling i Snorres Edda 1884, bls. 21, 86, sbr. Skjaldedigtning B I,
bls. 60):
vrungu (eða vrngu) varrar Gungnis
varrar lungs um stunginn.
Um ljóðatilvitnanir Ólafs hefur Gísli Sigurðsson fjallað á mjög greinargóðan
hátt í riti sínu, Túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar (2002). Hann
sýnir fram á það að þeir frændur, Snorri og Ólafur, hafa búið yfir miklum auði
ljóðmæla, fornra og nýrra, og hefur sumt þegar verið komið á bækur á þeirra
tímum, sumt hefur ratað á bókfellið síðar, en sumt aldrei nema þessar stöku
vísur og vísubrot í ritum þeirra frænda. Umfjöllun Gísla rennir afar styrkum