Gripla - 20.12.2006, Page 203
STEFÁN KARLSSON 201
íslenskri málsögu, nákvæmni og ögun við úrvinnslu og greiningu stafsetn-
ingareinkenna einstakra skrifara auk víðtækrar þekkingar á mannfræðilegum
heimildum. Stefán var gæddur einstakri glöggskyggni og virtist eiga létt með
að festa sér í minni persónubundin skriftareinkenni. Sjónminni hans mátti
heita óbrigðult og dugði honum til að greina eina rithönd frá öðrum höndum
og bera kennsl á hana hvar sem henni brá fyrir í skjali eða handriti. Eftir þá
eldskírn, sem ofangreind verkefni voru, hafði hann aflað sér meiri vitneskju en
nokkur annar um þróun skriftar fram til siðaskipta á Íslandi og var orðinn
flestum öðrum fróðari um íslenska málsögu. Með þeirri yfirsýn og þekkingu
sem hann öðlaðist við rannsóknir sínar á stafsetningu, stafagerð og skriftar-
venjum bæði í íslenskum og norskum fornbréfum og handritum varð hann
öðrum betur í stakk búinn til þess gera grein fyrir tilurð þeirra og tímasetja þau
af meiri nákvæmni en áður hafði verið gert.
Auk þeirra rita sem getið er um hér að framan ritaði Stefán á annað hundrað
styttri og lengri fræðilegra greina í fræðileg tímarit, alfræðirit og afmælisrit til
vina og kollega. Ritaskrá Stefáns er birt hér í ritinu og þar geta lesendur betur
glöggvað sig á því hvaða rannsóknarefni Stefán tók fyrir í greinum sínum og
hvar þær sé að finna, en mörg þeirra afmælisrita sem hann skrifaði í liggja
ekki beinlínis á glámbekk fyrir almennum lesanda. Úr því var þó bætt að
nokkru leyti þegar Stefán varð sjötugur en þá stóðu vinir hans og kollegar fyrir
útgáfu afmælisrits honum til heiðurs, sem hlaut heitið Stafkrókar, og þar var
endurbirt úrval 28 greina af þeim sem hann hafði skrifað fram til sjötugs.
Margar greinar Stefáns og kannski meiri hluti þeirra byggðu með einum
eða öðrum hætti á þeim mikla efnivið og þekkingu sem hann hafði aflað sér
með vinnu sinni við stóru útgáfuverkefnin tvö, fornbréfin og Guðmundar
sögur. Þar birtust mjög oft niðurstöður ýmissa hliðarrannsókna sem vinnan við
þau hafði leitt hann út í. Sumum rannsóknarefnum af því tagi þurfti að gera
ítarlegri skil en formálar textaútgáfna leyfa og birta í sérstökum greinum sem
nægði síðan að vitna til í formála. Önnur leiddu til sjálfstæðra greina óháðra
útgáfunum. Greinar í alfræðibækur voru skrifaðar samkvæmt beiðni. Stefán
skrifaði alla tíð hjá sér til minnis ef hann rakst á eitthvað áhugavert við at-
huganir handrita eða lestur fræðibóka og urðu þeir minnispunktar tíðum
kveikjan að fyrirlestrum eða greinum í afmælisrit. Hér verða þessum greinum
ekki gerð nein skil í heild en drepið stuttlega á helstu atriði og niðurstöður
nokkurra greina sem einkum fjalla um handrit og skrifara.
Rannsóknir Stefáns á skrifarahöndum gátu af sér ýmsar greinar. Aldur
Hauksbókar birtist árið 1964. Haukur Erlendsson lögmaður er elsti nafn-