Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 199
STEFÁN KARLSSON 197
rithöndum bréfanna í yngri bréfum, bréfabókum og fjölda annarra skjala og
handrita, auk leitar að þeim mannanöfnum sem koma við sögu í bréfunum í
ýmsum heimildum öðrum greindi Stefán alls 50 fornbréfaskrifara sem skrifað
höfðu tvö bréf eða fleiri og önnur skjöl eða handrit. Af þeim greindi hann 28
skrifara 107 bréfa með nafni en nægar vísbendingar skorti til að nafngreina 22
skrifara 45 bréfa.
Áður en Stefán hafði lokið meistaraprófi sínu var hann kominn á slóð annars
rannsóknarverkefnis sem fylgdi honum upp frá því, en það voru miðalda-
sögurnar um Guðmund góða Arason sem fæddur var 1161 og var Hólabiskup
frá 1203 til dauðadags 1237. Aðdragandi þess að Stefán fór að fást við Guð-
mundar sögur biskups var rannsókn hans á uppskafningi meðal fornbréfa í
Árnasafni, en uppskafningur er skinnblað þar sem gamalt letur hefur verið
skafið út til þess að nota megi blaðið að nýju. Þetta var jarðarkaupabréf, AM
dipl. isl. fasc. LXX, 7, gert við Stóru-Þverá í Fljótshlíð 21. október 1607, sem
skrifað hafði verið á aðra síðu blaðs úr gamalli skinnbók. Vandlega hafði verið
gengið til verks við að skafa út allan texta skinnbókarinnar sem staðið hafði í
tveimur dálkum beggja megin á blaðinu. Blaðsíðan sem bréfið var skrifað á
reyndist vera fremri síða skinnbókartextans, og á henni varð aðeins efsta lína
í fremri dálki lesin auk einstakra stafa hér og þar, einkum fremst í línum. Betur
gekk með aftari síðuna. Með hjálp ljósmynda sem teknar voru í útfjólubláu
ljósi tókst Stefáni að leiða í ljós að skinnbókartextinn var úr Guðmundar sögu
biskups eftir bróður Arngrím Brandsson (munk og seinna ábóta Þingeyra-
klausturs um miðja fjórtándu öld, d. 1361 eða 1362), þ.e. svonefndri D-gerð
Guðmundar sögu, og loks las Stefán texta aftari síðunnar að mestu leyti með
stuðningi annarra handrita Guðmundar sögu. Samanburður hans á handritun-
um sem hér komu við sögu og greining hans á stafsetningu þeirra og stafagerð
leiddi hann að þeirri niðurstöðu að blaðið væri úr skinnbók sem væri að öðru
leyti glötuð með öllu. Fjölgaði þar með þekktum skinnbókum Guðmundar sögu
Arngríms um eina. En þar með voru ekki öll kurl komin til grafar því að rann-
sóknin leiddi einnig í ljós að tvö pappírshandrit sögunnar sem talin höfðu ver-
ið eftirrit skinnbókar, AM 219 fol sem nú eru aðeins tuttugu blöð varðveitt af,
væru það ekki heldur uppskrift eftirrits hennar, skinnbókar í handritasafni Res-
ens sem brann með Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn 1728. Þar með var
staðfest tilvist einnar skinnbókar enn af Guðmundar sögu Arngríms og hafði
rannsókn Stefáns fjölgað þeim úr sex í átta. Niðurstöður rannsóknarinnar birt-
ust árið 1960 í ritgerð eftir hann í Opuscula I (Bibliotheca Arnamagnæana