Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 204
GRIPLA202
greindi íslenski skrifarinn og eru til tvö bréf talin með hans hendi, bæði skrif-
uð í Noregi, annað 1302 og hitt 1310 og birt í fornbréfaútgáfu Stefáns. Í grein-
inni ber Stefán rithönd hans í handritinu Hauksbók saman við fornbréfin og
færir að því rök að handritið hafi verið skrifað á árunum milli ritunartíma bréf-
anna.
Í fyrsta bindi Guðmundar sagna 1983 birtir Stefán stuttan texta, Inntak úr
Guðmundar biskups sögu varðveittan í 17. aldar handriti sem Árni Magnússon
fékk frá séra Jóni Torfasyni á Breiðabólstað í Fljótshlíð, skrifað að sögn séra
Jóns af Halldóri nokkrum Guðmundssyni, norðlenskum manni. Stefán gerði
ítarlega leit að þessum skrifara og birti árangur hennar í langri grein, Halldór
Guðmundsson, norðlenzkur maður árið 1970, sem hljómar eins og leynilög-
reglusaga. Þar er engin fyrirhöfn spöruð til þess að leita uppi sérhvern vitnis-
burð sem stuðlað getur að lausn málsins, enda finnur Stefán skrifarann að
lokum ásamt nokkrum handritum sem hann skrifaði. Halldór þessi skrifaði
lítillega fyrir Þorlák biskup Skúlason á Hólum (1628–50) og telja má líklegt
að leit Stefáns að Halldóri hafi með öðru lagt grunnin að grein hans um 5
skrifara Þorláks, Skrifarar Þorláks biskups Skúlasonar sem birtist 27 árum
síðar eða árið 1997.
Stutt en athyglisverð grein sem Stefán skrifaði í samvinnu við Jonnu
Louise-Jensen, En marginal i Codex Regius af Den ældre Edda, birtist 1970
var sú fyrsta af þremur sem hann skrifaði um spássíugreinar í Konungsbók
Eddukvæða og varpa nokkru ljósi á sögu hennar áður en hún komst í hendur
Brynjólfs biskups Sveinssonar 1643. Grein um aðra spássíugrein í Kon-
ungsbók Eddukvæða birti Stefán 1986, Orðsnillin og skriftin, sem hann sýndi
fram á að Hallgrímur Pétursson mundi hafa skrifað og gat sér þess til að
honum hefði verið falið að færa Brynjólfi biskupi bókina. Þriðja greinin, Niður-
lag Konungsbókar, birtist svo 1993.
Í tveimur greinum Perg. fol. nr. 1 (Bergsbók) og Perg. 4to nr. 6 í Stokk-
hólmi sem birtist 1967 og NKS 1824b 4to frá 1970 sýnir Stefán fram á að á
þremur skinnbókum séu rithendur tveggja sömu skrifara sem hafa skrifað þær
að mestu leyti. Þær hafi væntanlega verið skrifaðar á sama stað, e.t.v. stórbýli
og kirkjustað eða í sama héraði á öndverðri 15. öld, en hvar á landinu það hafi
verið leyfir vitnisburður handritsins ekki að greina.
Í greininni Ritun Reykjarfjarðarbókar. Excursus: Bókagerð bænda frá
1970 leiðir Stefán líkur að því að Reykjarfjarðarbók Sturlungu hafi verið
skrifuð í áföngum af einum manni á alllöngum tíma og að þróun skriftar hans
megi rekja í gegnum hina fimm varðveittu hluta bókarinnar út frá þeim sex
þróunarstigum í skriftarlagi skrifarans sem Stefán telur að þar megi greina.