Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 41
GÖRÓTTUR ER DRYKKURINN 39
b. Borghildur bar annað horn Sinfjötla og bað drekka, og fór allt sem
fyrr.
c. Og enn ið þriðja sinn bar hún honum hornið og þó ámælisorð með, ef
hann drykki eigi af. Hann mælti enn sem fyrr við Sigmund. Hann sagði:
„Láttu grön sía þá, sonur.“ Sinfjötli drakk og varð þegar dauður.
Sinfjötla eru borin þrjú horn og svo er að skilja að hann bregðist við þeim
öllum á sama veg: fyrst kveður hann drykkinn göróttan, þegar honum var bor-
ið annað horn „fór allt sem fyrr“ og þegar hann fékk þriðja hornið „mælti
[hann] enn sem fyrr við Sigmund“. Ekki er víst að þetta beri að skilja sem svo
að Sinfjötli noti lýsingarorðið göróttur um síðari hornin tvö en eðlilegt er að
telja að ummæli hans séu efnislega á sömu lund.
Að minnsta kosti tveir kostir koma til greina við skýringu orðsins göróttur
þegar þessi stutti texti er skoðaður. Í fyrsta lagi mætti leggja til grundvallar
svar Sigmundar þegar Sinfjötli hafnar þriðja horninu, „Láttu grön sía þá, son-
ur“, en af því má ráða að helst verði brugðist við óánægju Sinfjötla með því að
sía eitthvað úr drykknum, ef til vill einhvers konar grugg eða botnfall, og gör-
óttur merki þá ‘gruggugur, dreggjaður’ eða eitthvað í þá veruna. Þá skýringu
orðsins er líka að finna í sumum fornmálsorðabókum: Fritzner (1886–96, 1:
607) segir það merkja ‘grumset’ og Heggstad, Hødnebø og Simensen (1975:
147) ‘gjørmet, grugget (om drikk)’.
Þessi skýring er þó ekki alls kostar gallalaus. Fyrst ber að nefna að ekki er
hægt að reiða sig á að svarið „Láttu grön sía þá, sonur“ séu viðbrögð við því er
Sinfjötli segir drykkinn göróttan; Sinfjötli notar göróttur um fyrsta hornið en
svar Sigmundar kemur ekki fyrr en Sinfjötla hefur verið borið þriðja hornið. Í
annan stað má nefna að ef göróttur merkti ‘gruggugur, dreggjaður’ í máli Sin-
fjötla gefa ummæli hans um fyrsta drykkjarhornið ekki tilefni til að halda að
eitthvað misjafnt sé á seyði, heldur virðist umkvörtun Sinfjötla þá eingöngu
lúta að gruggi sem spilli drykknum. Þá verður það að teljast einkennileg fram-
vinda sögunnar að Sigmundur skuli taka við horninu og drekka þennan ókræsi-
lega mjöð. Eðlilegra er að gera ráð fyrir því að göróttur feli í sér einhverja vís-
bendingu um sviksemi eða jafnvel banaráð.2
Annar kostur er að taka fullt tillit til sögumannsins sem segir að þegar Sin-
fjötla er borið fyrsta drykkjarhornið verði honum óðara ljóst að eitur er í
2 Ekki er þó hægt að útiloka með öllu að um sé að ræða úrdrátt og Sinfjötli geri vísvitandi lítið
úr grunsemdum sínum um banaráð með því að velja sakleysislegt orð er merkir ‘gruggugur,
dreggjaður’. Það kemur þó ekki reglulega vel heim og saman við þá gerð frásagnarinnar sem
er að finna í Völsunga sögu og rædd verður á eftir.