Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 91
UM HÁTTATAL SNORRA STURLUSONAR 89
Kristján Árnason 1991/2000:4–5). En þótt þau tilbrigði í máli sem fylgja
notkun kenninga og þess háttar stílmeðala breyti ekki háttum geta aðrar breyt-
ingar á máli gert það, eins og síðar kemur fram, t.d. í refhvörfum og sextán-
mæltu (sbr. 6. kafla hér á eftir).
4.6 Um ýmis leyfi. Hugsanlegt innskot
Á milli 8. og 9. vísu (línur 15–44, Edda, Háttatal:8–9) er alllangur „fræðileg-
ur“ lausamálskafli sem ekki er í beinu sambandi við nálægar vísur og er víða
dálítið ruglingslegur. Þar segir t.d. að það sé „annat leyfi háttanna at hafa í
dróttkvæðum hætti eitt orð eða tvau í vísu með álƒgum eða detthent eða dun-
hent eða skjálfhent eða með nokkvorum þeim hætti er eigi spilli kveðandi.“
Hér er vísað til afbrigða sem koma við sögu miklu síðar í kvæðinu, álagsháttar
(27. vísa), detthends háttar (28. vísa), dunhends háttar (24. vísa, sem raunar er
kennd við dunhendu einungis í viðbótarklausum í Konungsbók og Uppsala-
bók), og skjálfhendu, sem kemur oftar en einu sinni við sögu síðar (t.d. í 35.
vísu). Þessi afbrigði eru hins vegar ekkert skýrð á þessum stað.
Á eftir þessari, að því er virðist, þarflausu upptalningu á háttum kemur at-
hugasemd um að leyfilegt sé að hafa aðalhendingar í fyrsta eða þriðja vísuorði,
og síðan segir að fjórða leyfi sé „at skemma svá samstƒfur at gera eina ór tveim
ok taka ór annarri hljóðstaf. Þat kƒllum vér bragarmál ...“. Síðan eru tilfærðar
tvær línur úr vísu eftir Þórarin Máhlíðing, sem einnig er í Eyrbyggju. Segja má
að þessi útskýring á bragarmálum komi heldur seint, því betur hefði farið á því
að fjalla um þau strax á eftir 8. vísu, þar sem þau eru beinlínis notuð í texta
kvæðisins sjálfs, frekar en að hafa umræðuna um þau eftir að skotið var inn
upplýsingum um hætti sem síðar koma. Hér vaknar grunur um að um sé að
ræða einhvers konar innskot, hvort sem það er allur þessi lausamálstexti,
athugasemdin um bragarmál, eða þá umfjöllunin á undan um hina hættina. Og
þá er auðvitað hugsanlegt að þetta sé ekki frá Snorra sjálfum.7
Í þeirri lýsingu sem hér um ræðir eru bragarmál kölluð hið fjórða leyfi, og
þar á eftir segir að hið fimmta leyfi sé að skipta tíðum, hið sjötta að hafa í
dróttkvæðum hætti samhendingar eða liðhendingar (sem hvort tveggja merkir
að hafa hendingar og stuðla á sama atkvæði). Hið sjöunda leyfi er að hafa eitt
„málsorð“ í báðum vísuhelmingum, „ok þykkir þat spilla í einstaka vísum“.
Áttunda leyfi samkvæmt þessari upptalningu er það að „nýta þótt samkvætt
7 Velta mætti fyrir sér hvers vegna séu í þessum kafla tekin dæmi úr kveðskap annarra skálda,
sem annars er ekki mikið um í Háttatali. Þetta er þó augljóst einkenni á hinum köflum Snorra-
Eddu, svo ekki er hægt að halda því fram að það sé ólíkt Snorra að vitna til annarra skálda.