Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 84
GRIPLA82
4. „Fræðilegur“ grundvöllur braglýsingar Háttatals
Texti Háttatals byrjar með nokkuð hátimbruðum fræðilegum inngangi um
„hætti skáldskapar“, þar sem virðist gæta áhrifa frá alþjóðlegum fræðum þess
tíma. Þar er greint frá því að hættir skáldskaparins felist í þrennu, setningu,
leyfi og fyrirboðningu (Edda, Háttatal:3). Bent hefur verið á líkindi þessarar
greiningar við mælskufræði miðalda sem gerir greinarmun á pars praeceptiva,
pars permissiva og pars prohibitiva. Vera má að hér sé verið að reyna að setja
umfjöllunina í alþjóðlegt fræðilegt samhengi (svo notað sé kunnuglegt orðalag
úr nútímanum). En þessi vísun til alþjóðafræðanna er í reynd býsna yfirborðs-
leg þegar á heildina er litið, því að umfjöllunin á eftir snýst fyrst og fremst um
„rétta“ og „breytta“ setningu, þ.e. um grunnreglur og leyfi eða afbrigði. Hug-
takið fyrirboðning eða barbarismi gegnir nánast engu hlutverki í sjálfri um-
ræðunni, andstætt því sem er t.d. hjá Ólafi hvítaskáldi í Þriðju málfræðirit-
gerðinni. Lausamálslýsing Háttatals er þá frekar eins konar enarratio poeta-
rum, þ.e. útskýring á formum og merkingum kvæðisins.
4.1 Merking orðsins háttur
Ástæða er til að staldra stuttlega við sjálft orðið háttur og umtalið um „háttu
skáldskapar“ og hvernig stendur á því orðavali. Svo virðist sem hér sé á ferð-
inni heimafengið hugtak og orð sem líklegt er að tíðkast hafi frá fornu fari um
form skáldskaparins. Að minnsta kosti virðist ekki ástæða til að ætla að um sé
að ræða þýðingu á erlendu hugtaki.
Frummerking orðsins háttur er eitthvað í átt við ‘aðferð, stíll, venja’. Og ef
þýða ætti það á alþjóðatungur myndi það samsvara latneska orðinu modus,
sem raunar er orðið sem notað er um málfræðilega hætti sagna (e. mood).
Sverrir Tómasson (1993:70–71) telur að orðalagið „annarr söguháttr“ sé þýð-
ing á modus fictivus um þá aðferð að færa í stílinn og segja sögu í fáum,
stórum dráttum og ber það að sama brunni um að orðið háttr samsvari latn-
esku modus. Hugsunin á bak við latneska orðið metrum (gr. metron) er alls
óskyld. Það tengist mælingu eða talningu, og var það eðlilegt, því hættirnir
voru í klassískum fræðum skilgreindir út frá fjölda eininga, þ.m.t. pedes, sem
væri rökrétt að þýða sem ‘skref’ eða ‘fet’. Bragnum var þannig líkt við göngu-
lag og talað um arsis (dregið af grísku sögninni airó, ‘reisa, hefja upp’) og
thesis (leitt af sögninnin tithémi, ‘að setja, setja niður’, sbr. t.d. Allen 1973:122
o. áfr.), eins og fæti væri lyft og stigið niður. Orðið versum sem einnig er not-
að í klassískri bragfræði táknaði línur, sem endurteknar voru og líkt við