Gripla - 20.12.2006, Page 119
UM HÁTTATAL SNORRA STURLUSONAR 117
ing.“ Þetta ber að skilja svo að atkvæðið á eftir hendingunni sé sterkt, eða
a.m.k. komi ekki venjulegt endingaratkvæði á eftir því.
9. Hnepping
Næstu tveir hættir (vísur 77 og 78) bera heitin alhneppt og hálfhneppt. Það
sem einkennir þá öðru fremur er það að síðasta atkvæði í línu er sterkt og ber
hendingu, og minnir það að sumu leyti á stýfðar línur ferskeytlu:
[Snyðja] lætr í sólroð
snekkjur á Manar hlekk,
árla sér ungr jarl
allvaldr [brek]a fall21 (77. vísa, l. 1–4)
Stýfing (catalexis á erlendu máli), það að sleppa síðasta veika atkvæði í línu,
er alþekkt í kveðskap. Það er til dæmis regla í venjulegri ferskeytlu að hafa
síðasta braglið stýfðan: Yfir kaldan eyðisand.
En hnepping, eins og sú sem hér er lýst, virðist hins vegar örlítið annað
fyrirbrigði, því hún felst ekki bara í því að sleppa síðustu samstöfunni í línu. Í
lausamáli Háttatals segir um 77. vísu að sex samstöfur séu í línunum, en ekki
sé rangt þótt þar verði fimm eða sjö. Hneppingin kemur þannig fram að hend-
ing er í atkvæði sem ekki hefur áherslulaust atkvæði næst á eftir, enda segir
um hendingarnar í þessari vísu að þær séu þannig að hin fyrri sé „rétt í drótt-
kvæðu en in síðari stýfð eða hneppt“. Þ.e.a.s. í hálfhnepptu fylgir áherslulaust
atkvæði (veik staða) fyrri hendingunum, en ekki þeim seinni.
Í alhnepptu eru hins vegar „fjórar samstƒfur í vísuorði ok tvær aðalhend-
ingar <ok lúkask> báðar í einn staf ok allar hendingar hneptar“ (bls. 33):
Hrƒnn skerr – hvatt ferr –
húfr kaldr – allvaldr,
lá brýtr – lƒg skýtr –
limgarmr – rangbarmr (78. vísa, l. 1–4)
Hneppingin felst þá í því að sleppa áherslulausu atkvæði, hvort heldur er inni
í línu eða í línulok, og láta sterkar samstöfur standa einar og ef verkast vill
stangast á við aðrar sterkar samstöfur í nágrenninu.
21 Þetta dæmi sýnir að ekki var orðin frálíking, sem skaut inn lokhljóði í orðinu fall.