Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 88
GRIPLA86
og nafn hans bendir til, og Snorri byrjar á því að fjalla um hann. Hann er sá
stafur sem settur er fyrst í öðru vísuorði í línupari, og „vér kƒllum hƒfuðstaf“.
Og síðan segir: „Sá stafr ræðr kveðandi. En í fyrsta vísuorði mun sá stafr
finnask tysvar standa fyrir samstƒfun. Þá stafi kƒllum vér stuðla“ (Edda,
Háttatal:4). Snorri lítur sem sé þannig á (eins og Ólafur hvítaskáld, sbr. Björn
Magnússon Ólsen 1884:96) að höfuðstafurinn og stuðlarnir sem styrkja hann
séu einhvers konar burðarásar í kveðandinni. Hægt er að orða það svo að
stofnhlutagerð vísna sé skilgreind með stuðlasetningunni, þannig að línupörin
séu bundin saman og greind frá öðrum með höfuðstöfum og stuðlum, og að
forlínan og síðlínan myndi stofnhluta innan línuparsins. Vera kann að þetta sé
hugsunin á bak við orðalagið að stuðlasetningin greini allt mál (í merkingunni
(skáldskapar)texti).
Hér er rétt að hafa það í huga að þótt hljóðstafir séu notaðir í dróttkvæðum
hætti má gera ráð fyrir að þeir eigi uppruna sinn í eddukvæðum, en ólíkt drótt-
kvæðum byggði hrynjandi þeirra á orðatalningu og setningaráherslu (sbr.
Kristján Árnason 2002, 2006). Í slíkri hrynjandi var eðlilegt að stuðlasetning
þróaðist sem rímmeðal, því hún byggir á upphafi orða. Og miðað við form
edduháttanna var höfuðstafurinn, sem settur var á fyrra ris seinni stuttlínu, í
næst-síðasta ris langlínunnar. Höfuðstafurinn stendur framarlega í niðurlagi
línuparsins í fornyrðislagi. Notkun stuðla í dróttkvæðum er því með vissum
hætti „fengin að láni“ úr fornyrðislagi.
Þar sem stuðlarnir eru upphafsrím í orðum kann það að virðast sérkenni-
legt að þungamiðja venslanna sem þeir skilgreina sé síðasti þátttakandinn í
þeim og verðskuldi þar með að vera kallaður höfuðstafur. En frá öðrum sjón-
armiðum er í raun eðlilegt að líta á höfuðstafinn sem einhvers konar miðdepil
í stuðlavenslunum. Það er vel þekkt lögmál að segðir (og þar með setningar)
hafa tilhneigingu til þess að hafa þungamiðju aftarlega, og á þetta við bæði um
áherslu og upplýsingagildi. Á sama hátt er það alþekkt að bragform hafa
gjarnan strangari reglur um form í lok lína og annarra brageininga en við upp-
haf þeirra.6 Bragformin eru því gjarna „afturþung“ að formi, í þeim skilningi
að formþættirnir koma skýrast fram í lokin. Stuðlar í forlínu mynda þá stuðn-
ing eða stoðir við höfuðstafinn, eins og nafnið bendir til, en þungamiðja
stuðlavenslanna er höfuðstafurinn. Stuðlarnir hafa líka mun meira frelsi um
6 Algengt er að lýsing bragarhátta gangi út frá niðurlagi lína, þannig eru írskir bragarhættir
flokkaðir eftir atkvæðafjölda og því hvernig þeir enda (sbr. Murphy 1961). Svipuð flokkun
tíðkast í ítalskri bragfræði; línur eru flokkaðar saman eftir atkvæðafjölda og niðurlagi, þótt
hrynjandin framar í línum sé breytileg og skapi undirflokka (sbr. Bausi og Martelli 1993:
22–35).