Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 99
UM HÁTTATAL SNORRA STURLUSONAR 97
„fall eðr tíma“ (sbr. Björn M. Ólsen:154) og virðist vísa til framburðar, þótt
óljóst sé hvernig túlka beri.
Til greina gæti komið að túlka þetta svo að tíðarfall sé eins konar bragliður.
Það virðist hins vegar ólíklegt. Í fyrsta lagi eru bragliðir í anda klassískrar
bragfræði ekki hluti af hugmyndaheimi braggreiningar Háttatals, eins og áður
er bent á, og í öðru lagi er öllum orðunum sem taka þátt í refhvörfum eðlilegt
að hafa áherslu, þannig að þau eiga ekki auðvelt með að mynda bragliði eins
og rétta tvíliði eða þríliði þar sem tengjast sterk og veik atkvæði. Ekki skal úr
þessu skorið hér, en sú túlkun að segja að orðið „tíð“ eða „tíðarfall“ merki hér
beygingarending eða málfræðiformdeild (sbr. Finnur Jónsson 1929:249, Gade
1991:367–368) kann við fyrstu sýn að virðast heldur langsótt. E.t.v. mætti þó
túlka orðalagið að lúkask <í> eina tíð svo sem það merki að ‘enda eins, hafa
sömu eða jafngilda endingu’.
Refhvarfabálkinum lýkur, eins og fram hefur komið, með 23. vísu, en inn
á milli vísnanna sem sýna refhvörfin eru ítarlegar lýsingar á þeim stílbrögðum
sem beitt er. Oftar en ekki byggja þau á orðaleikjum (eru ofljós) og virðist
ólíklegt annað en sami maður hafi ort vísurnar og samið skýringartextann, svo
flóknar eru skýringarnar, en koma jafnframt vel heim við textann. Hér er því
komin röksemd fyrir því að Snorri hafi samið bæði bundið og óbundið mál í
Háttatali.
6.3 Endurtekningar, orðskviðir og þræðing
Nú víkur sögunni í átt að annars konar bragtilbrigðum, og er í lausamáli spurt
(bls. 15) hvernig „skal skipta dróttkvæðum hætti með hendi<n>gum eða orða-
lengð“ (þ.e. lengd vísuorða). Raunar er hér ekki komið beint að efninu, því
fyrst eru nokkur afbrigði enn sem skilgreind eru út frá stíl eða orðavali. Í 24.
vísu er rímatkvæðið í viðurhendingu forlínunnar endurtekið sem frumhending
í síðlínunni (þannig að þrjú atkvæði taka þátt í hendingunum). 25. vísa sýnir
háttinn tilsagt, en þar eru í fyrstu fjórum bragstöðum í jöfnu línunum inn-
skotssetningar sem skýra kenningar í setningunum sem ná yfir ójöfnu línurnar
og lokalið jöfnu línunnar. Allar þessar kenningar tákna reyndar öl, bjór, mjöð
og vín, en í vísunni er lýst örlæti konungs í veitingum þessara veiga. Í orðs-
kviðuhætti (26. vísa) er skotið inn orðskviðum í fimm síðustu stöðum jöfnu
línanna, og álagsháttur (27. vísa) hefur svipaða gerð með innskotum og þræð-
ingu milli lína, þannig að fyrsta orðið í síðlínunni tilheyrir sömu setningu og
forlínan, en fimm síðustu bragstöður í jöfnu línunum eru sér um mál.
Þótt þessi afbrigði komi í framhaldi af athugasemd um breytta setningu