Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 104
GRIPLA102
á ekki við nema um fyrstu jöfnu línuna: vinda – lindar. (Í hinum línunum eru
rímorðin: brunnum – runnin, stafna – hrafni og barni – arnar.) E.t.v. er hér í
ógáti einungis litið til fyrstu jöfnu línunnar en horft framhjá hinum, og gætu
þá ummælin í textanum átt við hana eina. En hafa ber í huga að texti hand-
ritanna er misjafn og kann vandinn að liggja þar.10
Næsti háttur (sá á 33. vísu) er kallaður veggjað, og er einkenni hans fólgið
í því að bætt er inn einu aukaatkvæði á undan lokarisi í jöfnum vísuorðum, án
þess að um sé að ræða klofið ris, hlutleysingu eða bragarmál. Þetta er sem sé
í fyrsta skipti að hætti er (raunverulega) breytt með atkvæðafjölda eða réttara
sagt bragstöðufjölda:
Lífs varð rán at raunum
réð sverð skapat mjk ferðum,
stƒng óð þrátt á þingi
þjóðsterk, liðu fram merki;
hrauð of hilmis bróður
hvƒss egg friðar ván seggjum,
spjót náðu blá bíta,
búandmenn hlutu þar renna (33. vísa)
Engar frekari skýringar fylgja, en hér virðist reglulegt að rím sé í annarri stöðu
í jöfnu línunum. Væntanlega er það ekki heldur tilviljun, að orðin á undan
innskotsatkvæðunum hafa öll létt áhersluatkvæði: skapat, liðu, friðar og hlutu.
Og raunar væri hugsanlegt að halda því fram að hér sé einhvers konar klofin
bragstaða, þannig að atkvæðin tvö fylli eina, og þá yrðu bragstöðurnar sex,
sem er hin venjulega tala í dróttkvæðri línu. Hins vegar er hrynjandi þessarar
línu „þyngri“ ef svo má segja en venjulegt er. Munurinn er sá að fjórða staða
í jöfnu línunum (samkvæmt þessum reikningi) er tiltölulega sterk, því þar eru
einkvæð orð sem geta borið áherslu, en ekki forsetningar eða beygingarend-
ingar sem eru algengust í þessari stöðu. Raunar höfum við þegar séð dæmi um
tiltölulega þung atkvæði í fjórðu stöðu í jöfnu línunum, t.d. í detthendu (29.
vísu).
Flagðaháttur, sem er næstur í röðinni, hefur líka aukaatkvæði í jöfnu vísu-
orðunum. En að þessu sinni er aukaatkvæðið eitt af atkvæðum fimmkvæðs
10 Í Konungsbók stendur: á ein ... f báðar. Wormsbók hefur: í einum staf, Uppsalabók hefur:
báðar í einn hljóðstaf, en textinn sem Faulkes velur til að fylla í eyðuna er úr Trektarbók.