Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 92
GRIPLA90
verði við þat er áðr er ort vísuorð eða skemra“. Níunda leyfið er sagt vera að
reka (þ.e. framlengja kenningar) til „hinnar fimtu kenningar, er ór ættum ef
lengra er rekit“. Síðan segir að „þótt þat finnisk í fornskálda verka, þá látum
vér þat nú ónýtt“, og hljómar þetta óneitanlega eins og hér haldi Snorri sjálfur
á penna, þótt hugsanlegt sé að einhver annar (ritari eða afritari) tali hér fyrir
munn hans. (Raunar telur Finnur Jónsson (1929:235) að notkun 1. p.ft. á þess-
um stað bendi til þess með öðru að textinn sem um ræðir sé innskot.)
Tíunda leyfi er hér sagt vera það „at vísu fylgir drag eða stuðill“. Ekki er
þetta útskýrt frekar hér og fræðimenn hafa ekki áttað sig á hvað hér sé átt við,
en líklegt talið að átt sé við einhvers konar viðbót eða framhald af vísu (sbr.
Edda, Háttatal:52). Ellefta leyfið er sagt vera að endurtaka ýmis smáorð, eins
og „er“, „en“ eða „at“. Og er hér tilfærður vísuhelmingur eftir Hofgarða-Ref.
Síðan segir að nota megi fornöfn í síðari vísuhelmingi til að vísa til manna
sem nefndir eru eða kenndir í fyrri helmingi. Hið tólfta leyfi er sagt vera „at-
riðsklauf“ og er ekki meira sagt um það, enda hefur fræðimönnum ekki tekist
að skýra hvað átt sé við (sbr. Edda, Háttatal:97).
Þessum lausamálskafla lýkur svo á spurningu og svari um tíðaskipti, sem
áður hafði verið minnst á, en heldur er lítið á því að byggja, því svarið er að
það sé þrennt: „þat er var, þat er <er>, þat er verðr“. Ekki er ljóst hvaða erindi
þessi athugasemd á hér. Í heild má segja að allur kaflinn, frá því að lokið er
útskýringu á formi 8. vísu og fram að umfjöllun um háttabreytingar með máli
í inngangi að 9. vísu, skjóti skökku við. Eins og áður sagði er ekki ólíklegt að
hann eða hluti hans sé innskot frá öðrum en Snorra, og telur Finnur Jónsson
(1929:235–236) ótvírætt að svo hafi verið, meðal annars vegna þess hversu
ruglingslegur hann er og í lausu sambandi við umhverfi sitt.
5. Samstöfur
Fram hefur komið að Snorri telur að stafasetning ráði hætti og geri kveðandi.
Þessi trú á gildi stuðlanna fyrir kveðskapinn, sem líka kemur fram hjá Ólafi
hvítaskáldi, kann að hafa verið viðtekin í norrænni umfjöllun um kveðskap, en
sú nánari lýsing á forminu, sem fylgir strax á eftir fyrstu vísu Háttatals, er að
verulegu leyti byggð á formdeildinni tala. Sagt er að tólf stafir (þ.e. ljóðstafir)
séu í hverju erindi, þrír í hverjum fjórðungi. Síðan segir að hverjum fjórðungi
fylgi tvö vísuorð, og eru sex samstöfur í hverju vísuorði. Hér er lýst stofn-
hlutum háttarins frá þeim stærri til hinna smærri. Samstöfur eru minnstu bygg-
ingareiningar bragarins, og hvað sem líður stuðlasetningu og hendingum, þá er