Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 90
GRIPLA88
enda miðar öll braggreiningin við skáldahætti, en edduhættir mæta afgangi.
Það er þó spurning hvort orð hans ber að túlka svo að dróttkvæður háttur sé að
hans mati (sögulega) upprunalegastur af öllum norrænum háttum.
4.5 Um breytta og óbreytta setningu
Eftir innganginn og útskýringarnar sem fylgja fyrstu vísunni er komið að því
að fjalla um „breytta setningu háttanna“. Sagt er frá því (Edda, Háttatal:5) að
hægt sé að breyta háttum annars vegar með máli og hins vegar með hljóðum.
Þessi aðgreining á „máli“ og „hljóði“ er ekki nánar útskýrð á þessum stað, og
áður er minnst á óljósa merkingu þeirra. En líklega má túlka textann hér svo,
að háttaskipti með hljóði taki til hrynjandi (atkvæðafjölda), hendinga og
stuðlasetningar, en breyting með máli byggist á tilbrigðum í notkun merk-
ingarbærra eininga, orða (t.d. í kenningum) og setninga (t.d. hvað varðar lengd
þeirra og orðaröð).
Þegar nánar er spurt í textanum hvernig skipta skuli með máli er svarið að
það megi gera á tvennan hátt, þ.e. með því að „halda eða skipta háttunum“. Og
þegar enn er spurt hvernig skuli breyta háttunum „ok halda sama hætti“, er
svarið að það megi gera með því að „kenna eða styðja eða reka eða sannkenna
eða yrkja at nýgjƒrvingum“. Og í næstu fimm vísum (2–6) eru sýnd dæmi um
notkun kenninga, og er þetta svo að skilja að hér sé háttum breytt, án þess
þó að breyta sjálfum bragformunum með hljóði, þ.e. með atkvæðafjölda,
hrynjandi, stuðlum eða rími, enda er síðar, eftir allnokkra umræðu um kenn-
ingar, talað um „orðalengð ok samstƒfur ok hendingar ok stafaskipti sem drótt-
kvætt“ (Edda, Háttatal:9).
Þótt orðalagið sé hér nokkuð óljóst virðist mega slá því föstu að notkun
kenninga hefur samkvæmt Háttatali ekki í för með sér raunverulega breytingu
á bragformi. Á eftir 6. vísu og útskýringum við hana, þar sem fjallað er um
nýgjörvingar, er sagt (bls. 7) að nú sé búið að lýsa dróttkveðnum hætti með
„fimm greinum“, þ.e. hættinum sjálfum (í fyrstu vísu) og fimm afbrigðum
(samtals sex vísum), „ok er þó hinn sami háttr réttr ok óbrugðinn, ok er optliga
þessar greinir sumar eða allar í einni vísu ok er þat rétt, þvíat kenningar auka
orðfjƒlða, sannkenningar fegra ok fylla mál, nýgjƒrvingar sýna kunnustu ok
orðfimi.“ Þetta ber sem sé að skilja svo að stílbrögð eins og sannkenningar og
stuðningur við þær með ákvæðisorðum, tvíriðið (þ.e. ef tvö ákvæðisorð fylgja
kenningunni) og nýgervingar (þ.e. notkun myndhvarfa), myndi ekki eiginlega
bragarhætti. Hér er ekki um að ræða breytileg form, heldur breytileika í texta
eða því sem kalla má samsetning (komposition, sbr. Allen 1973:104–105,