Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 161
GRÝLA KARLS ÁBÓTA 159
Meissner telur að Karl hafi ritað þann hluta sem á undan fer, hugsanlega á
latínu. Hann telur ólíklegt að hálfkæringsheitið Grýla um þetta rit, konungi til
dýrðar, sé runnið frá höfundinum sjálfum, heldur stafi það frá alvörulausum
almúga; miklu líklegra sé að nafnið Perfecta fortitudo varðveiti upphaflegt
heiti á riti Karls. Annar höfundur hafi síðan umskrifað það rit og fellt það inn
í ævisögu Sverris konungs.
Þessir 17 kaflar koma heim við lýsinguna á Grýlu í formálanum að því
leyti að frásögnin er eigi langt fram komin; hún nær aðeins fram til vorsins
1177. Orrusturnar sem sagt er frá eru allfáar miðað við orð formálans, eða
þrjár, og flestar lítils háttar. Þá er þar ekki heldur neitt það að finna sem Sverri
hefði ekki hugnast að hafa með í ævisögu sinni.
Eitt af því sem einkennir þessa allra fyrstu kafla er ákveðin huglægni í
frásögn. Sjónarmið einskorðast við Sverri í upphafi sögunnar, en þar verður
engin breyting á fyrr en nokkru eftir 17. kafla. Hins vegar er það meðal ein-
kenna í upphafi að á nokkrum stöðum er lýst hugsunum og tilfinningum
Sverris, en þau dæmi eru bundin við fyrstu 11 kafla sögunnar (Holm-Olsen
1953:65–67, sbr. Koht 1914:89).
Annað ‘sjálfsævisögulegt’ einkenni sem er takmarkað við upphafskafla
bókarinnar, reyndar allnokkuð fram yfir 17. kafla, er sérstök notkun sagnorð-
anna sjá, sýnask, finna(sk), þykkja í sögufrásögn, þ.e. utan beinnar ræðu, þar
sem lýst er skynjun og ályktunum Sverris. Slík dæmi eru langalgengust í
fyrstu köflum sögunnar, fram til 22. kafla. En mikil tíðni slíkra orða í tak-
mörkuðum hluta sögunnar getur naumast verið tilviljun (Holm-Olsen 1953:
67).
Þá eru nefndir draumar Sverris sem eru fyrirferðarmiklir í upphafsköflum
Sverris sögu og reynast fyrirboðar um væntanlega upphefð hans og liðsinni
Guðs og helgra manna með þessum umkomulausa presti og konungsarfa úr
Færeyjum. Draumarnir uppfyllast þegar á söguna líður, en sjálfir eru þeir tak-
markaðir við fyrstu 10 kafla sögunnar, reyndar með tveimur undantekningum:
42. kafla þar sem segir í endurliti frá draumi Sverris sem boðað hafði fall
Erlings jarls skakka og feigðardraumi Sverris sjálfs í 180. kafla.
Að öllu athuguðu er niðurstaða Meissners ekki sannfærandi. Í lok 17.
kapítula hefur Sverri tekist að ná þeim áfanga að láta taka sig til konungs á
Eyraþingi, en um leið hefur hann stofnað sér í enn meiri háska sem engan veg-
inn sér fyrir endann á. Hér eru því alls engin greinanleg skil í sögutextanum,
hvorki í efni, stíl né frásagnareinkennum.