Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 83
UM HÁTTATAL SNORRA STURLUSONAR 81
var á 13. öld (sbr. t.d. lýsingu þess hjá Guðrúnu Nordal 2001). Að einhverju
leyti er Háttalykill hinn forni fyrirrennari Háttatals, og gerir Anne Holtsmark
ráð fyrir því að erlend áhrif hafi orkað á höfunda Háttalykils (Háttalykill
1941:118–134) enda var hugmyndin að háttalyklum var þekkt í Evrópu (Tranter
1997). Einnig hafa menn kannað almenn erlend áhrif á Snorra-Eddu og
hugmyndafræði hennar (sbr. t.d. Clunies Ross 1987, 2005) og ekki er ólíklegt
að Snorri hafi að einhverju leyti verið innblásinn af erlendum fyrirmyndum og
menningarhugmyndum samtíma síns. Stíllinn í upphafi Háttatals er svipaður
og á lærðum latneskum ritum frá miðöldum, þar sem útskýringarnar eru í
formi spurninga og svara. Eins er greiningin milli (réttrar) setningar, leyfis og
fyrirboðningar, sem einnig kemur fram hjá Ólafi hvítaskáldi í Þriðju mál-
fræðiritgerðinni, af erlendum uppruna. Það fer hins vegar ekki á milli mála að
Snorra-Edda öll og þar með Háttatal er mun þjóðlegra verk en t.d. Þriðja
málfræðiritgerðin og sú fjórða sem kennd hefur verið Bergi Sokkasyni.
Þegar hugað er að erlendum áhrifum og fyrirmyndum er sérstök ástæða til
að veita því athygli, að Snorri vitnar í engu til viðtekins evrópsks lærdóms á
miðöldum um meðferð klassísks latnesks kveðskapar. Lýsing á hrynjandi í
þeirri hefð byggðist á því að greina línur í bragliði (pedes) af ýmsum gerðum
(trocheus, iambus, dactylus o.s.frv.). Miðaldamálfræðingar, eins og Maximus
Victorinus (4. öld), Aldhelm og Beda á 7. og 8. öld, gerðu grein fyrir reglum
um latneska hætti og þekktu hina klassísku aðferð að greina þá í bragliði (sjá
t.d. Norberg 1988:13–16, Bede. 1991. De Arte Metrica. Libri II og Aldhelmus.
1919. De metris). Vel hefði verið hugsanlegt fyrir Snorra og aðra samtíma-
menn hans að gera tilraun til að greina norrænan kveðskap með þessum klass-
ísku aðferðum. Til dæmis hefði mátt greina algengustu gerð dróttkvæðrar línu
(svo sem Undrask glis landa, svsvsv) sem þrjá tróka, og eins hefði mátt
greina línur eins og fann’k rvadrif svanni (ssvvsv) sem sponda (spondeus),
pyrra (pyrricus) og tróka (trocheus).5 Þrátt fyrir það að í Háttatali og víðar í
Snorra-Eddu megi sjá merki um þekkingu á klassískum fræðum og evrópskum
lærdómi, er braggreiningin sjálf að því er virðist ósnortin af slíkum lærdómi.
5 Notkun hugtaksins bragliður (tvíliður, þríliður, réttur og öfugur) virðist ekki komast inn í
íslenska bragfræðiumræðu fyrr en á 19. öld, samkvæmt ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.