Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 96
GRIPLA94
Þessi greinarmunur á bragstöðu og samstöfu er ekki gerður opinskátt í Hátta-
tali. En sá skilningur á forminu liggur að baki lýsingunni og í skilgreiningu
háttarins er að orðið samstafa er notað, annars vegar um samstöfu eða atkvæði
í máli, og hins vegar um bragstöðu sem samsvarar slíku atkvæði. Þessar 6
bragstöður eru þá grundvallareiningar í formi háttarins.
Athyglisvert er að ekkert er talað um styrk atkvæða í Háttatali. Seinni tíma
bragfræðingar eru þó sammála um að þær geti verið sterkar eða veikar, og það
gjarna svo að ójöfnu stöðurnar, sú 1., 3. og 5., eru sterkar og þær jöfnu (2., 4.
og 6.) veikar, þannig að út kemur hrynjandi með réttum tvíliðum (þ.e. trókísk),
A-gerð samkvæmt seinni tíma flokkun. Meginreglan var sú að í sterkum stöð-
um stóðu áhersluatkvæði, gjarna þung, en áherslulítil atkvæði í veikri stöðu.
Þessi mismunandi styrkur atkvæða réðist af stöðu þeirra innan orða (en styrk-
ur og veikleiki í edduháttum réðist af stöðu orða í orðasamböndum). En einnig
má gera ráð fyrir að rím og stuðlasetning hafi tekið þátt í því að marka at-
kvæði sem sterk eða veik í dróttkvæðum línum, þótt ekki sé víst að þessir
þættir tengist áherslunni eða styrk í framburði með beinum hætti. Hér á eftir
verður stundum talað um upphefð (prominence) atkvæða, óháð því hvort hún
stafar af áherslu, atkvæðaþunga eða þátttöku í hendingum eða stuðlasetningu.
Þannig má gera ráð fyrir að tvær fyrstu stöðurnar í fjórðu línu 1. vísu, friðrofs
konungr ofsa séu báðar tilölulega sterkar eða fái upphefð, þar sem frumhend-
ingin er í 2. stöðu en höfuðstafur í þeirri fyrstu.
Minnst var á það hér að framan að það sé lögmál í kveðskap að meiri festa
sé í lokin en í upphafi línu. Og það kemur heim og saman, að breytileiki í at-
kvæðafjölda og hrynjandi er algerlega bundinn við fjórar fyrstu bragstöðurnar.
Tvær síðustu bragstöðurnar eru undantekningarlaust einkvæðar. Sú fyrri er
sterk og með þungu atkvæði, (sem hefur langt sérhljóð heitir, ræsa), eða fleiri
en eitt samhljóð á eftir sérhljóðinu ofsa, fyrðum), og síðasta bragstaðan er í
óbreyttum dróttkvæðum hætti alltaf veik og fyllt með áherslulausu atkvæði.
Klofningur á bragstöðu, hlutleysing, eða viðsnúningur á sterkri og veikri stöðu
(eins og í B-gerð, þ.e. ssvvsv í stað svsvsv), er því ekki leyfður í lok línu.
Einnig er það til marks um festuna í línulokunum, að seinna rímatkvæðið
(viðurhendingin) er undantekningarlaust á þessum stað, þótt staðsetning hins
fyrra (frumhendingarinnar) sé breytileg.