Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 115
UM HÁTTATAL SNORRA STURLUSONAR 113
8.2 Tögdrápa
Fyrsta vísan í síðasta kvæðinu (68. vísa) er ort undir tögdrápulagi. Í lausamáli
er gert ráð fyrir að meginreglan í þessum hætti sé að fjórar samstöfur séu í
hverju vísuorði. Hendingar eru reglulegar aðalhendingar samkvæmt drótt-
kvæðum í jöfnum línum, en ekki eins reglulegar í ójöfnum línum. Höfuðstafur
er í upphafi síðlínu, en ein „hljóðfylling“ (þ.e. stuðull) í forlínu.
Fremstr varð Skúli ...
Skala lof dvala,
sem ek mildum gram
mærð fjƒlsnærða;
meir skal ek stœri
styrs hróðr fyrir
(kærr var ek harra)
*hers gnótt bera (68. vísa)
Fyrsta línan í þessari vísu myndar, eins og sýnt er með þrípunkti, upphaf
klofastefs, sem lokað er í síðustu línu 70. vísu: ... skjldunga ungr (sbr. síðar).
Miðað við það að bragstöðurnar séu fjórar í tögdrápulagi gæti virst eðlilegt
að gera ráð fyrir tveimur risum í línu og líta á háttinn sem eins konar rímað
fornyrðislag, eins og Faulkes stingur upp á (Edda, Háttatal:66–67), en ýmis-
legt mælir þó gegn því. Þótt línulengdin sé lík og í fornyrðislagi (eða mála-
hætti) virðist hrynjandin vera talsvert önnur og líkari dróttkvæðum. Í fyrsta
lagi er höfuðstafurinn fastbundinn við upphaf síðlínunnar, en í fornyrðislagi er
reglulegt að áherslulaus atkvæði komi þar á undan í síðlínum, vegna þess að
þar er horft til setningaráherslu, og áherslulaus smáorð í upphafi línu gátu ver-
ið hlutlaus eða „ósýnileg“ í hrynjandinni. Í dróttkvæðri hrynjandi er, eins og
fram hefur komið, horft til bragstaðna sem skilgreindar eru út frá atkvæðum,
og það var föst regla (fyrir utan fornskálda hætti og háttlausu) að hafa höfuð-
staf á fyrsta atkvæði.
Þótt ekki hafi allar forlínur hendingar í 68. vísu, hafa þær þó reglulega
hrynjandi, sem greina má sem tvo tvíliði. Og þessi hrynjandi verður atkvæða-
bundin með bragarmálum í 3., 5. og 7. línu, þannig að bragstöðurnar verða
fjórar, tvær veikar og tvær sterkar í hverri línu. Í 1., 5., og 7. línu er A-hrynj-
andi, en í þeirri 3. er einhvers konar viðsnúningur, þannig að hrynjandin verð-
ur jambísk.
Sé hins vegar litið á síðlínurnar bendir margt til þess að túlka beri þær