Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 82
GRIPLA80
3. Form Háttatals og tilgangur
Kveðskapurinn í Háttatali er ekki eitt kvæði, heldur bálkur þriggja kvæða með
skýringum í lausu máli, þar sem meðal annars greinir frá kvæðaskilunum.
Fyrsta kvæðið er 30 vísur, og kvæði númer tvö lýkur með þeirri 67. og er því
37 vísur; þriðja kvæðið tekur við með 68. vísu og er til enda (vísurnar eru alls
102). Skiptingin í kvæði virðist byggjast frekar á innihaldi en formi. Fyrsta
kvæðið er helgað Hákoni konungi, annað kvæðið er að mestu helgað Skúla,
og hið þriðja, sem reyndar fær að nokkru leyti formlega skilgreiningu og er
sagt vera ort undir „inum smærum háttum,“ fjallar einnig að mestu um Skúla,
þótt síðustu vísurnar séu um báða höfðingjana (sbr. t.d. Yelena Sesselja Helga-
dóttir 2001).
Úr því að kvæðin eru þrjú má auðvitað láta sér detta í hug að þau hafi verið
ort hvert í sínu lagi og síðan sett inn í eina heild um leið og lausamálstextinn
var saminn. Um það verður ekki dæmt hér, en það virðist þó afar ólíklegt að
fyrsta kvæðið (um Hákon konung) sé ort þannig og án tillits til bragskýring-
anna, því lausamálið og bragformin eru svo nátengd hvort öðru. Hin kvæðin
hafa vafalaust einnig frá upphafi verið hugsuð sem einhvers konar háttalyklar
þótt ekki sé útilokað að lausamálstextinn sem þeim fylgir sé saminn síðar.
Í samhengi Snorra-Eddu, sem handbókar eða kennslubókar um norrænan
kveðskap, verður hlutverk Háttatals sem bragfræðiverks frekar en venjulegs
lofkvæðis (eða lofkvæða) enn greinilegra. Eftir Gylfaginningu og Skáldskap-
armál, sem leggja grunn að skilningi á skáldamálinu, var eðlilegt að kæmi
kafli sem sýndi bragformin sjálf, og það er hlutverk Háttatals. Þetta er raunar
í beinum tengslum við samtal Braga og Ægis í Skáldskaparmálum, þar sem
segir að þau tvenn „kyn“ sem greina skáldskap allan séu „mál og hættir“ (Edda,
Skáldskaparmál 1:5). Málinu er lýst í Skáldskaparmálum, en háttunum í Hátta-
tali. Þótt hlutar Snorra-Eddu fylgist ekki alltaf að í handritum (sbr. t.d. Guðrún
Nordal 2001:41–72), virðist eðlilegt að líta á þessa þrjá hluta hennar sem
einhvers konar heild.
Þótt það verði ekki meginviðfangsefni þessarar greinar, er fróðlegt að líta
á stöðu og hugmyndaheim verksins í samanburði við aðra menningu á mið-
öldum og hugsanleg erlend áhrif. Miðað við það að Edda sem heild sé hugsuð
sem handbók um norrænan kveðskap virðist tilgangur hennar hafa verið þjóð-
legur, framlag til norrænnar menningar frekar en t.d. einhvers konar innlegg í
alþjóðlega fræðiumræðu. Í ljósi þess að Háttatal er hluti af Eddu mætti líta á
það sem þjóðlegt verk. En það þýðir auðvitað ekki að erlendra áhrifa gæti alls
ekki, og vafalaust hefur það átt vel heima í því menningarumhverfi sem hér