Gripla - 20.12.2006, Page 196
GRIPLA194
Þá höfðu þau merku tíðindi gerst að þjóðþing Dana samþykkti vorið 1961 að
afhenda til Íslands nokkurn hluta íslenskra handrita sem varðveitt voru í safni
Árna Magnússonar og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Stefán var einn
þeirra fræðimanna sem fylgdu handritamálinu frá sjötta áratugnum og til loka.
Sem námsmaður og síðan starfsmaður Árnasafns í Kaupmannahöfn lagði hann
málstað Íslands lið með skýrum og rökföstum málflutningi á fjölmörgum
fundum og í blaðagreinum þar í landi svo að eftir var tekið. Heimkominn til
starfa á Árnastofnun í Reykjavík var hann á vettvangi þegar Danir afhentu Ís-
lendingum fyrstu handritin, Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók með
eftirminnilegum hætti árið 1971. Hann fékk það hlutverk að taka á móti hand-
ritunum hverju af öðru þegar þau tóku að streyma til landsins jafnt og þétt upp
úr 1974. Og þegar lokaáfanginn í afhendingu handritanna frá Danmörku rann
upp, þá hafði Stefán tekið við starfi forstöðumanns Árnastofnunar og gætti
þess að þegar 25 ár voru liðin frá komu fyrstu handritanna var þess minnst
með viðeigandi hætti. Þegar sú stund rann upp að síðustu handritin skyldu af-
hent stóð hann fyrir eftirminnilegri hátíðarstund og tveggja daga dansk-ís-
lensku málþingi um handritin, dagana 19. og 20. júní 1997, í hátíðarsal Há-
skóla Íslands. Að frumkvæði Stefáns og með dyggum stuðningi Sáttmálasjóðs
voru þangað komnir meðal annarra góðra gesta allir starfsmenn dönsku safn-
anna beggja, Árnasafns og Konungsbókhlöðu, sem heimangengt áttu og unnið
höfðu að afhendingu handritanna á þeim 26 árum sem hún stóð yfir.
Ævistarf fræðimannsins Stefáns Karlssonar var fjölbreytt og spennandi.
Hann fékk fyrir eigin verðleika tækifæri til að helga líf sitt rannsóknum ís-
lenskra handrita allt til síðasta dags og það tækifæri nýtti hann út í ystu æsar
og rækti hlutverk sitt af alúð og nákvæmni, sjálfum sér til óblandinnar ánægju
og þjóð sinni til ómetanlegs gagns. Eina rannsókn leiddi af annarri, verkefnin
voru óþrjótandi hvert sem litið var, spurningarnar margar og fjölskrúðugar
sem leita þurfti svara við. Rannsóknir hans náðu til geysimargra handrita og
þar á meðal til nánast allra merkustu og þekktustu handrita þjóðarinnar og
allra varðveittra fornbréfa fram til 1450 og lengur.
Í samráði við aðalleiðbeinanda sinn í háskólanáminu, Jón Helgason prófess-
or, valdi Stefán sér að kjörsviði til meistaraprófs mál íslenskra fornbréfa frá
elstu varðveittu bréfum um 1280 og fram til 1450. Í ársbyrjun 1957 hóf hann
að eftirrita frumbréfin og var það undirbúningur að rannsókn hans á máli
þeirra og grundvöllur að meistaraprófsritgerð hans sem fjallaði um stafsetn-
inguna á bréfunum, ‘Ortografien i islandske originaldiplomer indtil 1450’. Hann
hélt áfram vinnu við verkefnið að loknu háskólaprófi og hófst þá handa við að
búa fornbréfin til prentunar. Birtust þau árið 1963 í tveimur bindum undir