Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 158
GRIPLA156
2
Karl Jónsson er einstöku sinnum nefndur í heimildum, en fátt er um hann
vitað. Gera má ráð fyrir að hann hafi verið fæddur kringum 1140, en fram
kemur að hann var vígður ábóti á Þingeyrum 1169. Því embætti gegndi hann
fram til 1181, þegar heimildir herma að annar maður hafi verið settur ábóti,
Kári Runólfsson (Islandske Annaler 1888:119). Kári andaðist samkvæmt ann-
álum 1187, og þá er gert ráð fyrir að Karl hafi aftur tekið við embættinu við
heimkomuna frá Noregi.3 Við hefðum ef til vill enga vitneskju um Noregsferð
Karls Jónssonar 1185, hefði hann ekki verið samskipa Ingimundi, ástvini og
fóstra Guðmundar Arasonar, en frá utanför hans er sagt í Prestssögu Guð-
mundar í Sturlungu (Sturlunga saga 1909–1911 I:146). Skipið kom að landi í
Þrándheimi, en þann vetur hafði Sverrir konungur vetursetu í Niðarósi. Ann-
álar herma að ekkert skip hafi siglt af Noregi til Íslands 1187, þannig að menn
telja að Karl hafi siglt út aftur 1188. Árið 1207 var vígður nýr abóti til Þing-
eyra, en andlátsár Karls er samkvæmt annálum 1212 eða 1213.
Það hlýtur að liggja beinast við að álykta að ritun Sverris sögu hafi hafist
veturinn 1185–6. Á þeim tíma virðist Sverrir hafa setið á friðarstóli eftir að
hafa brotið voldugustu andstæðinga sína á bak aftur. Skömmu fyrr hafði hann
unnið mesta og afdrifaríkasta sigur sinn í orrustu þar sem hann felldi Magnús
konung Erlingsson og mestan hluta lendra manna hans. Þetta var í bardag-
anum við Fimreiti í Sogni, 15. júní 1184. Mörgum hefur fundist ótrúlegt að
Karl hefði látið hjá líða að skrifa um þann atburð fyrst hann hóf að rita sögu
Sverris konungs á annað borð.
Mismunandi hugmyndir um afmörkun Grýlu og hlutdeild Karls í sögunni
verða meginviðfangsefni hér á eftir, en fyrst verður vikið fáum orðum að sjálfu
nafninu.
3
Sú Grýla sem þekkt er úr þjóðtrúnni sem óvættur og barnahræða á sér fornar
rætur. Í orðsifjabókum er orðið talið skylt griuwel í miðháþýsku sem merkir
‘ótti, skelfing’ og þýsku sögninni grauen: ‘óttast’. Orðið er varðveitt bæði í
3 Sjá yfirlit, Holm-Olsen 1953:22–29. Í Benediktsmunkareglunni voru ábótar vígðir til lífstíðar.
Það kemur því á óvart að ábóti geti horfið frá klaustri sínu, en síðan tekið aftur við ábótatign
mörgum árum síðar. Reglan hljóðar svo: Eitt sinn ábóti ávallt ábóti, en íslenska kirkjan virðist
ekki hafa verið sérlega regluföst á fyrstu öldum kristninnar. Varðveitt er ábótatal frá byrjun
14. aldar þar sem ártöl eru hin sömu (DI III:28, sbr. 311).