Gripla - 20.12.2006, Page 40
GRIPLA38
legt, sbr. (1d). Niðurstöður eru dregnar saman í 6. kafla en þær eru í stuttu máli
á þá leið að lýsingarorðið göróttur, sem líkast til hefur merkt ‘með agni, sem
tál er í’, hefur verið gjróttr í forníslensku og með eðlilegri hljóðþróun hefði
afkomandi þess í nútímamáli verið gjöróttur. Heimildir benda þó til þess að
gjöróttur hafi ekki lifað fram til nútíma heldur horfið úr málinu (en erfitt er að
segja hvenær) og verið endurvakið sem göróttur á nítjándu öld; nútímamáls-
orðið göróttur reynist því vera eins konar tökuorð úr fornu máli.1
2. Merking orðsins göróttur í elstu heimildum
Eins og þegar hefur verið getið kemur orðið göróttur aðeins fyrir í frásögninni
af dauða Sinfjötla, sonar Sigmundar Völsungssonar, sem lýst er bæði í Kon-
ungsbók eddukvæða og Völsunga sögu. Fyrst verður hugað að frásögninni í
Konungsbók eddukvæða en hún er í lausamálskafla framan við Grípisspá.
Það er upphaf þeirra viðskipta Borghildar og Sinfjötla sem hér koma við
sögu að Sinfjötli og bróðir Borghildar „báðu einnar konu báðir, og fyrir þá sök
drap Sinfjötli hann“, eins og segir í Konungsbók eddukvæða (útg. Gísli Sig-
urðsson 1998:208). „En er hann kom heim þá bað Borghildur hann fara á brott
en Sigmundur bauð henni fébætur og það varð hún að þiggja. En að erfinu bar
Borghildur öl. Hún tók eitur, mikið horn fullt, og bar Sinfjötla.“ Til skýrleiks-
auka er það sem gerist næst skilið sundur í þrennt og sýnt í (2a–c) (útg. Gísli
Sigurðsson 1998:208; leturbreytingar hér).
(2) Sinfjötla borin þrjú drykkjarhorn: Konungsbók eddukvæða
a. En er hann sá í hornið skildi hann að eitur var í og mælti til Sig-
mundar: „Göróttur er drykkurinn, ái.“ Sigmundur tók hornið og drakk
af. Svo er sagt að Sigmundur var harðgör að hvorki mátti honum eitur
granda utan né innan, en allir synir hans stóðust eitur á hörund utan.
1 Grein þessi er að stofni til fyrirlestur sem ég flutti á Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands 18.
nóvember 2005; áheyrendum þar þakka ég gagnlegar umræður. Guðrúnu Þórhallsdóttur og
Guðvarði Má Gunnlaugssyni þakka ég ábendingar og athugasemdir við eldri gerð greinar-
innar. Guðrúnu þakka ég enn fremur tækifæri til að kynna efni greinarinnar í námskeiðinu
05.41.22 Orðsifjafræði á meistarastigi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands á haustmisseri
2006 og nemendum þar hjálplegar athugasemdir og umræður. Sigurði Péturssyni þakka ég
aðstoð og ónafngreindum ritrýni Griplu gagnlegar ábendingar. Ég ber að sjálfsögðu einn
ábyrgð á göllum sem enn kunna að finnast. Verk þetta var styrkt af Vísindasjóði Rannsókna-
miðstöðvar Íslands.