Gripla - 20.12.2006, Blaðsíða 13
KVEÐSKAPUR EGILS SKALLAGRÍMSSONAR 11
og Kuhn bjó löngum hjá Jóni í húsinu hans í Kaupmannahöfn þegar hann
dvaldist þar við fræðistörf. En þótt þessir menn væru jafnaldrar og vinir er
ekki þar með sagt að þeir hafi verið sammála um öll vandamál fræðanna.
Jón Helgason skrifaði þátt um dróttkvæði í bókmenntasögu sinni, Norrøn
litteraturhistorie (1934). Þá varðveitti hann enn barnatrúna og lætur hvert
fornskáldanna fá sinn skerf. En í ritinu Norges og Islands digtning, sem út
kom 1953, er komið hik á hann varðandi feðrun kveðskaparins, og því fjallar
hann ekki um dróttkvæðin undir nöfnum skáldanna, heldur skiptir hann þeim
í kafla eftir innihaldi: „Mytisk-heroiske digte“, „Genealogiske digte“, „Fyrste-
digte“ o.s.frv.; í síðasttalda flokkinum fá skáldin raunar að halda eignarrétti
sínum til kvæðanna.
Mig langar til að hafa eftir Jóni tvær setningar sem hann sagði í mín eyru
þegar ég taldist vera lærisveinn hans í kringum 1950, en þær setningar voru
nokkurn veginn á þessa leið: „Mér dettur ekki í hug að nokkur vísa í Íslend-
ingasögum sé eftir þá menn sem sögurnar vilja vera láta.“ Og enn kvað hann:
„Það er merkilegt að það virðist ekki hvarfla að Hansi Kuhn að nokkur göm-
ul vísa geti verið ranglega feðruð.“
Hans Kuhn og Einar Ól. Sveinsson voru annars þeir menn sem einna mest
fjölluðu um dróttkvæði á 20. öld. En rannsóknir þeirra beggja fengu með
nokkrum hætti dapurlegan endi. Þegar Kuhn gekk frá aðalverki sínu, sem hann
nefndi Das Dróttkvætt, var hann steinblindur orðinn og hlaut að styðjast við
minni sitt og aðstoð yngri manna. Og Einar Ólafur birti aldrei á prenti sitt aðal-
verk um dróttkvæðin, sem átti að verða annað bindi í hinni miklu bókmennta-
sögu hans, Íslenzkar bókmenntir í fornöld; fyrsta bindi kom út 1962.
Forn norrænn kveðskapur var höfuðviðfangsefni Kuhns frá ungum aldri.
Um það efni fjallaði doktorsritgerð hans, Das Füllwort of – um im Altwest-
nordischen (1929), og síðan birti hann margar ritgerðir þar sem hann skoðaði
kveðskapinn frá ýmsum sjónarhornum. Segja má að hann hafi verið barn síns
tíma eða kannski öllu heldur barn eldri tíma. Hann setti fram ákveðnar reglur
og skýringar sem hann hvikaði aldrei frá. Ein reglan var sú sem ég nefndi fyrr,
að taka sem gefið að flestöll dróttkvæði væru eftir þau skáld sem heimildir
hermdu, eða þá að ófeðraður kveðskapur væri rétt aldursgreindur hjá Finni í
Skjaldedigtning. Engu að síður má finna hjá Kuhn fjöldamargar athuganir sem
geta leiðbeint mönnum við aldursgreiningu dróttkvæða. Það hefur Einar
Ólafur notfært sér, en ég held að hann hafi verið eini maður í veröldinni sem
las og ígrundaði hvert orð sem Hans Kuhn ritaði um dróttkvæði meðan heilsan
entist; hann var raunar þrotinn að heilsu þegar rit Kuhns Das Dróttkvætt kom
út 1983.