Skírnir - 01.04.2000, Síða 26
20
BALDUR JÓNSSON
SKÍRNIR
tökupróf í fyrsta bekk Menntaskólans á Akureyri, þá 13 vetra, og
hann prófaði mig í íslensku. Síðan var ég nemandi hans fimm vet-
ur, frá 2. bekk menntaskólans og upp úr og kynntist honum þá
persónulega. Þegar ég hafði verið tvo vetur við nám í íslenskum
fræðum í Háskóla Islands varð hann lærifaðir minn þar og leiddi
mig til fyrrihlutaprófs, leiðbeindi mér síðar óformlega við samn-
ingu ritgerðar til meistaraprófs 1958. Síðan urðum við samkenn-
arar og samverkamenn og héldum góðum kynnum og vináttu uns
yfir lauk.
Telja má undravert hve miklu Halldór Halldórsson afkastaði
um dagana, því að hann var ekki líkamshraustur og þurfti alloft
að dveljast á sjúkrahúsi. Mörg síðustu árin var hann lítt fær til
gangs og sjónin mjög skert, en þó var hann sístarfandi eljumaður.
Andlegu þreki og skýrleik hélt hann allt til loka.
Halldór var samt enginn meinlætamaður. Hann hafði gaman
af góðum mannfagnaði, og oft var gestkvæmt á heimili hans.
Hann var gamansamur og glettinn, en rólegur í fasi og enginn há-
vaðamaður. Hann var jafnan notalegur og hlýr í viðmóti, en lét
engan eiga neitt hjá sér.
Halldór Halldórsson var gæfumaður í einkalífi sínu, eignaðist
ágæta konu, Sigríði Guðmundsdóttur, sem var honum góður
förunautur, og voru þau einkar samhent. Sigríður var Reykvík-
ingur, dóttir hjónanna Guðmundar H. Guðnasonar gullsmiðs og
Nikólínu Hildar Sigurðardóttur. Þau Halldór og Sigríður gengu í
hjónaband haustið 1939 og fluttust þá norður á Akureyri. Þar
áttu þau bestu ár ævi sinnar og minntust þeirra oft með söknuði.
Þar fæddust börnin þeirra fjögur, tveir synir og tvær dætur, sem
öll komust til manns. Eldri sonurinn, Guðmundur, sem var lengi
blaðamaður á Morgunblabinu, andaðist um hálfum mánuði fyrr
en faðir hans. Hin eru: Hildigunnur tölvunarfræðingur, Elísabet
bókasafnsfræðingur og Halldór fjölmiðlafræðingur. Sigríður lést
6. desember 1997, og var heimili Halldórs eftir það í Skógarbæ í
Reykjavík.
Vinir Halldórs sáu hann síðast í hjólastól við útför sonar síns.
Tæpri viku síðar var hann allur.