Skírnir - 01.04.2000, Page 57
SKÍRNIR STURLUNGA, GOÐAVELDIÐ OG SVERÐIN TVÖ
51
Þótt Sturla hafi verið andsnúinn Hákoni gamla um 1250, og
síðar gerst brotlegur við hann, er ekki þar með sagt að hann hafi
verið neinn andstæðingur konungsvalds, eins og sumir hafa talið.6
Á einhverju tímabili hefur hann ef til vill verið andsnúinn Hákoni
konungi. Hann kann líka að hafa verið á báðum áttum og svo
getur vel verið að afstaða hans hafi breyst eftir að hann komst í
vinfengi við Magnús konung. Tengsl sögumannsins, sem enn tal-
ar til okkar af blöðunum, og höfundar, sem er dáinn fyrir meira
en 700 árum, eru flóknari en svo að við getum ráðið af æviferli
Sturlu hvaða stjórnspekileg afstaða felst í Islendinga sögu.
Um höfunda annarra sagna en íslendinga sögu vitum við ekki.
Vera má að þeir séu margir og hafi haft ólíkar stjórnmálaskoðan-
ir. Ég leiði engum getum að því hverjir þessir menn voru eða
hvað þeim þótti um valdabrölt íslenskra höfðingja og Hákonar
gamla. Hér verður aðeins reynt að skoða þá afstöðu sem birtist í
sögunni. Hún getur verið önnur en þær skoðanir sem einstakir
höfundar höfðu bæði vegna þess að sá sem steypti sögum þeirra
saman í eina heild hefur valið og hafnað og vegna hins að frá-
sögnin er afsprengi bókmenntahefðar sem lifði sínu eigin lífi að
nokkru leyti óháð einstökum höfundum.
í næsta kafla geri ég stuttlega grein fyrir þeim stjórnmálahug-
myndum sem tókust á hér á landi á 13. öld. Þar á eftir færi ég svo
rök að því að Sturlunga taki afstöðu með kirkju- og konungsvaldi
gegn gamla íslenska goðaveldinu.
2. Goðaveldið og sverðin tvö
Til að skilja stjórnmálahugsunina í Sturlunga sögu þurfum við að
gleyma um sinn þjóðfrelsishugmyndum 19. aldar og hugmyndum
17. og 18. aldar um fullveldi, ríkisvald sem hefur endanlega lög-
sögu og einkarétt á valdbeitingu innan tiltekinna landamæra. Við
þurfum að hafa það hugfast að sagan er hluti af kristinni menn-
6 Sjá t.d. Guðna Jónsson 1957:vii þar sem segir um Sturlu að hann „virðist jafn-
an hafa kosið sér samstöðu með þeim mönnum, er hann hugði standa eða
stóðu gegn vaxandi ágengni konungsvalds hér á landi, þótt hin þjóðholla
stefna hans yrði að lokum að lúta í lægra haldi“. Um hugmyndir fleiri fræði-
manna í þá veru að Sturla Þórðarson hafi verið andstæðingur Noregskonungs,
sjá Ármann Jakobsson 1995:171-172.