Skírnir - 01.04.2000, Page 76
70
ATLI HARÐARSON
SKÍRNIR
Myndin af Sturlu sem sannkristnum höfðingja er dregin sterkust-
um dráttum rétt fyrir fall hans í Orlygsstaðabardaga, þar sem
hann er látinn fasta og segja:
„Mikinn mun ætla eg þess vera með oss frændum hvern veg það er gefið.
Ef þeir hafa vald yfir mér, frændur mínir, þá hygg eg að mér sé dauðinn
einn ætlaður en það veit guð með mér þó að eg eigi vald á þeim að engis
þeirra blóði skal eg út hella.“49
Rétt fyrir orrustuna tók hann svo „rollu úr pungi sínum og söng
af bænir sínar og söng Agústínusbæn meðan liðið bjóst“.50
Sturla Sighvatsson er aðalhetja Sturlunga sögu. Við megum
ekki láta það villa okkur sýn þótt samúðin sé með fórnarlömbum
hans þegar hann beitir ofbeldi. I Sturlungu er samúðin alltaf með
fórnarlömbum ofbeldis fremur en þeim sem beita því.51 Mann-
dráp eru aldrei hetjuleg, það er enginn ljómi af hermennsku og
vopnaburði. Andúð sögumanns á ofbeldi er alger, jafnvel þótt
það beinist gegn hinum verstu mönnum. Þegar Sturla hefnir sín á
sonum Þorvalds Vatnsfirðings fyrir níðingsverkin sem þeir unnu
á heimilisfólki hans að Sauðafelli er samúðin t.d. með þeim
bræðrum og það án þess að á nokkurn hátt sé reynt að fegra eða
réttlæta Sauðafellsför.52
Sögumaður Sturlungu vill ekki að ofbeldis sé hefnt með enn
frekari ofbeldisverkum. Þessi friðarhugsjón birtist víða í sögunni,
til dæmis eftir Flugumýrarbrennu. Frá henni segir í Islendinga
sögu Sturlu Þórðarsonar. Þótt vinir Sturlu og tilvonandi tengda-
sonur hafi brunnið inni á Flugumýri, og dóttir hans verið hætt
komin, gerir hann ekki aðra athugasemd frá eigin brjósti en þessa:
Þessi tíðindi spurðust brátt og þótti öllum vitrum mönnum þessi tíðindi
einhver mest hafa orðið hér á Islandi sem guð fyrirgefi þeim er gerðu
með sinni miklu miskunn og mildi.53
49 Samarit, 408.
50 Samarit, 417.
51 Um friðarhugsjónina sem birtist í íslendinga sögu, sjá Ármann Jakobsson
1994.
52 ítarlega umfjöllun um þetta er að finna hjá Ármanni Jakobssyni 1994, bls. 63
o. áfr.
53 Sturlunga 1988:642.