Skírnir - 01.04.2000, Page 91
SKÍRNIR LÖGIN SEM SUNGIN ERU VIÐ VÍSUR ÍSLENDINGA 85
þýska söngvasafninu frá 1895 er aftanmáls vísað til heimilda um
að Josef Doche sé höfundur lagsins, en samt er það merkt sem
franskt þjóðlag.12
Þar sem lagið fór víða um lönd og var sungið við ólíka texta
urðu til ýmis tilbrigði þess, eins og nótnaútgáfur bera með sér.
Elstu útgáfur á nótum lagsins, sem greinarhöfundi er kunnugt
um, eru í frönsku söngvasöfnunum frá 1834 og 1843, sem áður
getur. I seinni útgáfunni eru Doche og Debraux tilgreindir sem
höfundar lags og ljóðs. Þessar útgáfur eru töluvert frábrugðnar
þeirri sem Islendingar syngja nú á dögum. Hins vegar er þýska
útgáfan, eins og hún er í söngvasafninu 1895, líkari íslensku nú-
tímaútgáfunni,13 þó að við séum litlu nær um það hvernig Islend-
ingar sungu lagið í Hjartatjarnarhúsum sumarið 1835.
Neiið varð einn vinsælasti gamansöngleikur Heibergs og lagið
umrædda lifir enn góðu lífi í Danmörku sem „ástardúett úr Nei-
inu“. Neiið hefur margsinnis verið sett upp hér á landi, fyrst um
eða upp úr miðri 19. öld á dönsku en fljótlega í íslenskri þýðingu
þar sem ástardúettinn hefst með þessum orðum:
Þú manst það víst, það var í Konungsgarði
að vegir mættust fyrsta sumardag ...
Nú á dögum er lagið sungið við kvæði Halldórs Laxness, I Hall-
ormsstaðaskógi („Bláfjólu má í birkiskógnum líta“).
Ekki er vitað hvenær Islendingar tóku að syngja Vísur íslend-
inga við lag C. E. F. Weyses. Hann samdi lagið árið 1824 við ætt-
jarðarljóðið Der er et Land eftir C. J. Boye. Nótur lagsins birtust
í söngbók danska Stúdentafélagsins 1833 og var það því þegar
þekkt meðal Hafnarstúdenta þegar Jónas orti Vísur Islendinga.
Lagið naut vinsælda meðal Dana áður fyrr, en er sjaldan sungið í
Danmörku nú á dögum. I nýlegri útgáfu á laginu ásamt ljóði
Boyes segir:
12 Böhme, Volkstiimlicher Lieder, bls. 81-82.
13 Sjá þýska útgáfu lagsins í riti Aðalgeirs Kristjánssonar, Nú heilsar þér á Hafn-
arslóð, Reykjavík 1999, bls. 164.