Skírnir - 01.04.2000, Page 113
SKÍRNIR
MUSTERITUNGUNNAR
107
Hér á að vera vígi til varðveizlu og eflingar þjóðlegra verðmæta lífs og
listar. Hér á að vera turn til útsýnis um erlenda leiklist, og hér á að vera
brú milli fortíðar og framtíðar í bókmenntum og máli.35
I þessum kafla er menningarlegu hlutverki Þjóðleikhússins í sam-
félaginu sennilega einna áþreifanlegast lýst, eins og kristallast í
byggingalíkingum Vilhjálms, þar sem leikhúsinu er líkt við vígi,
turn og brú. Um leið eru meginhlutverk hússins, sem talin voru
upp hér á undan, undirstrikuð og í raun gefið fast form: útsýnið
úr turninum til erlendrar menningar, því að leikhúsið á að taka á
móti erlendum menningarstraumum, og brúin milli fortíðar og
nútíðar, sem tengja á hefðina við samtímann, eru mjög áberandi
myndlíkingar. I ræðu Vilhjálms er hins vegar staða hefðarinnar
og ræktun hennar augljóslega einna mikilvægust. Það er auðvitað
nokkuð eðlilegt og sjálfsagt að menningarstofnun á borð við
þjóðleikhús eigi fyrst og fremst að leggja rækt við hefðina, að
standa vörð um menningarverðmæti. En þó verður að hafa í huga
að ekki er til nein löng leikhúshefð hér á landi, og eins og áður
kom fram er hinn íslenski atvinnuleikari jafngamall Þjóðleikhús-
inu. Menningarverðmætin, sem leikhúsið á að standa vörð um,
hljóta því að verða sótt annað og grundvallast á öðrum hefðum
en þeim sem snúa að leiklist:
Með Þjóðleikhúsinu höfum vér Islendingar eignazt nýja menningar-
stofnun, stofnun, sem fyrst og fremst hefur því hlutverki að gegna að
varðveita þjóðleg verðmæti, leikbókmenntir vorar og móðurmál.36
Eins og í málflutningi Vilhjálms Þ. Gíslasonar er varðveisla þjóð-
legra menningarverðmæta hér talin fyrsta og mikilvægasta skylda
Þjóðleikhússins. Og einnig hér eru þessi menningarverðmæti ná-
kvæmlega skilgreind: (leik)bókmenntir og móðurmál. Þessar tvær
undirstöður íslenskrar menningar eru grundvöllur þeirrar hug-
myndafræði sem Þjóðleikhúsið byggir á, og eru um leið verð-
mætin sem Þjóðleikhúsið á að standa vörð um. Það á að vera vígi
35 Vilhjálmur Þ. Gíslason 1950c:6.
36 Leikhúsmál 1950:2.