Skírnir - 01.04.2000, Síða 161
SKÍRNIR
RÖKIN FYRIR VEIÐIGJALDI
155
eigi það líka kvótana og leigi útgerðarmönnum þá, til dæmis í
uppboði á nokkurra ára fresti.8 Eftir að útgerðarmenn hafi leigt
kvótana af ríkinu, megi þeir nýta þá eins og þeir vilji, veiða í sam-
ræmi við þá eða selja þá öðrum innan leigutímans. Formælendur
slíks veiðigjalds viðurkenna margir, að kvótakerfið sé hagkvæmt,
en segja, að veiðigjald sé ekkert annað en nauðsynleg endurbót á
því. Það minnki ekki hagkvæmni í fiskveiðum og geti jafnvel auk-
ið hana með því að knýja útgerðarfyrirtæki til hraðari hagræðing-
ar en ella. Formælendur veiðigjalds bæta því við, að það sé rentu-
gjald, og slíkt gjald sé miklu hagkvæmari fjáröflunarleið fyrir rík-
ið en til dæmis tekjuskattur eða eignaskattur, sem hvorir tveggja
minnki löngun manna og tilhneigingu til að vinna og spara.9
(Ástæðan til þess, að rentugjald á náttúrugæði minnkar ekki
framleiðslu eða nýtingu slíkra gæða er, að framboðið er sam-
kvæmt skilgreiningu óbreytanlegt eða lítt breytanlegt. Hið eina,
sem tekið er af mönnum með rentugjaldi, er sá umframhagnaður,
sem þeir hefðu ella notið af einkaaðgangi sínum að takmörkuðum
gæðum.) En málið er ekki svo einfalt. Veiðigjald, sem lagt væri
ofan á núverandi kvótakerfi, myndi stórminnka hina almennu
hagkvæmni af því, en ekki auka. Til þess eru fjórar meginástæður.
I fyrsta lagi er atvinnugreinum mismunað (og ákvörðunum
manna og áætlunum á hinum frjálsa markaði þannig raskað), ef
renta er gerð upptæk í einni grein, en ekki öðrum. Hvað um
hagnað eigenda af góðum bújörðum (sem þeir hafa sjálfir ekkert
gert til að endurbæta), eftirsóttum lóðum í þéttbýli og margvís-
legum vatnsréttindum eða hagnað fólks af sérstökum hæfileikum
sínum, svo sem söngrödd, námsgáfum eða líkamsfegurð? Allur
slíkur hagnaður er renta í skilningi hagfræðinnar. Til þess að verð
sé sambærilegt á öllum mörkuðum, og veiti fullnægjandi upplýs-
ingar, verður eitt yfir alla þá, sem hirða rentu, að ganga. I öðru
lagi er mikill munur á því, hvernig einstakir hluthafar í útgerðar-
8 Þótt þeir Gylfi Þ. Gíslason og Þorsteinn og Þorvaldur Gylfasynir hafi verið
ötulustu formælendur veiðigjalds síðustu árin, hefur enginn þeirra útfært hug-
myndina, svo að heitið geti. Markús Möller hefur hins vegar gert það að
nokkru leyti, sjá „Fyrirkomulag veiðileyfagjalds" í Vísbendingu (29. febrúar
1996).
9 Þorvaldur Gylfason, „Hagkvæmni og réttlæti“ í Stjórn fiskveiða og skiptingu
fiskveiðiarðsins, 20.