Skagfirðingabók - 01.01.1967, Page 26
SKAGFIRÐINGABÓK
ljúka raunalegum Hólaþætti í ævi frú Þóru með fáum orðum. Hún
lézt á Hólum 6. júní 1882, ári síðar en dóttir hennar og tengdasonur
fluttust þaðan að Hofi. Hún var þá þorrin þreki og hafði ráðið flutn-
ing sinn frá Hólum sama vor, þótt drægist lengur en ætlað var. Tekizt
hefur henni að eiga fyrir útför sinni, því að tvær jarðir lét hún eftir
sig í arf til dóttur sinnar, Háls í Kaldakinn og Hrappsstaði í sömu
sveit.
Þá er rétt að telja börn Jóns Benediktssonar og Sigríðar konu hans:
1. Þóra, fædd 1. sept. 1860.
2. Benedikt, fæddur 1. marz 1863.
3. Halldór, fæddur 14. ág. 1865.
4. Björn, fæddur 13. marz 1867, og
5. Gunnar Bergþór, fæddur seint á ári 1875 eða snemma árs 1876.
Kirkjubók Hólasóknar greinir ekki frá fasðingu hans. Öll voru þau
systkin vel gefin og sköruleg. Þótti ýmsum Halldór vera þeirra efni-
legastur, vel gefinn, starfsmaður góður, er hann náði þroskaaldri, og
hinn merkasti maður. Benedikt var talinn laus í ráði, meðan hann var
hér á landi. Hann kvæntist 1882, þá talinn eiga heima á Ríp. Var
kona hans Þcrbjörg, dóttir Árna Sigurðssonar, er bjó í Stokkhólma og
síðar á Starrastöðum, og 4. konu hans, Secelíu Halldórsdóttur. Var
Þorbjörg merk kona, hálfsystir Magnúsar trésmiðs Árnasonar, föður
sr. Ólafs í Arnarbæli. Áttu þau Benedikt og Þorbjörg tvær dætur,
Þóru, f. 16. marz 1884 að Syðri-Brekkum, og Sigríði, f. 9. júní 1886
að Hofi í Hjaltadal.
Þóra Jónsdóttir giftist 25. október 1880 Hans Vilhelm Pálssyni frá
Hofi í Hjaltadal (f. 1857). Var hann trésmiður að iðn. Hann þótti
álitlegur maður og vel gefinn, þótt misjafnlega vel gengi á geð manna.
Varð hann síðar þekktur maður vestan hafs og átti þar þingsetu mörg
ár. Ekki geðjaðist Jóni þessi ráðahagur dóttur sinnar. Munu hafa legið
til þess þau rök frá hans hálfu, að hann óttaðist eða taldi raunar víst,
að þau Sigríður kona sín og Vilhelm hefðu veitt hvort öðru meiri
athygli en telja mætti við hæfi, meðan Vilhelm var heimamaður þeirra
nokkru áður en hér var komið. Haft var eftir Jóni, þegar er hann vissi
ráðna giftingu þeirra Vilhelms og Þóru: „Þar fer góður biti í hunds-
24