Skagfirðingabók - 01.01.1967, Síða 67
í HEGRANESI UM ALDAMÓT
höfðu verið reknar af stað daginn áður og áttu að koma að Ríp sama
daginn og við. Ég hlakkaði ekki til þess að fara frá Mælifelli, en þó
var það með nokkurri eftirvæntingu að flytjast út í Hegranesið. Ég
hafði einu sinni komið þangað áður; þá var ég á tíunda ári, kom að Ási
og snöggvast í hlaðið á Ríp. Hittist svo á, að prestur og kona hans
voru ekki heima. Var þá verið að byggja þar nýjan bæ - með torfveggj-
um og timburstöfnum eins og þá var víðast venja. Ekki sá ég nema
fjögur timburhús í Skagafirði um aldamótin: í Ási (2 hús), Egg og
Eyhildarholti, en víða voru bæir alþiljaðir innan torfveggja.
Vel man ég enn, þegar ég leit aftur heim að Mælifelli af melunum.
Þar stóð bernskuheimili mitt autt og tómt, staðurinn, þar sem ég hafði
lært að hugsa og átt beztu stundir lífs míns, bernskuna, hjá góðum
umhyggjusömum foreldrum og mörgu öðru ágætu fólki. Ég held, að
bernskuheimili mitt hafi, þegar á allt er litið, verið óvenju gott og
glaðvært. Þar skorti aldrei neitt, sem nauðsyn var að hafa eftir þeirrar
tíðar viðhorfum, þar ríkti gestrisni og góðvild, sátt og samlyndi. Auð-
vitað gat komið fyrir, að sitt sýndist hverjum og menn héldu fram
málstað sínum og yrðu þá kannski nokkuð heitorðir í svip, en mér er
óhætt að fullyrða, að foreldrar mínir voru bæði af þeirri manngerð, að
þau létu ekki sólina ganga undir yfir reiði sinni. Sáttfúsara fólk hef
ég aldrei þekkt. Og vinnufólkið var nær undantekningarlaust ágætt,
eða svo fannst mér og hef ekki breytt um þá skoðun. Ég minnist veru
minnar á Mælifelli með innilegu þakklæti, og mér fannst ég skilja
þar eitthvað eftir mjög dýrmætt og dásamlegt. Ég var mjög bráðþroska
að mörgu leyti og hafði lesið mikið og lært, þótt ég væri aðeins tæpra
15 ára þá um vorið. Það var hin áhyggjulitla og unaðslega bernska,
sem ég skildi eftir á þessum stað, sem jafnan hefur verið og verður
kærasti bletturinn í endurminningunum. Ég hef nokkrum sinnum
komið að Mælifelli síðan, og jafnan grípur mig þá þessi sama sárljúfa,
saknaðarblandna kennd, sem gagntók mig, er ég leit aftur heim rétt
um leið og bærinn fór í hvarf. En svo var horft fram og haldið áfram.
Þannig verður það að vera.
Við riðum yfir Mælifellsána á vaðinu, þar sem brúin er nú, og yfir
Svartána á Prestsvaðinu svokallaða neðan við Steinsstaðalaug. Áin var
í vexti og nokkuð djúp. í Steinsstaðalaug höfðum við bræður lært að
65
5