Skagfirðingabók - 01.01.1967, Síða 94
SKAGFIRÐINGABÓK
Nú eru engar stórar ár í landnámi Mána, og hefur hann því helgað
sér land með fyrri aðferðinni. Ef landnám Hólmgöngu-Mána hefði
náð inn fyrir Hvalnes, hefðu bálin þurft að vera æði mörg, vegna
staðhátta þar, til þess að þrjú bál sæjust samtímis alla leið að ósi Fossár
við Kálfshamarsnes. Fyrir innan Ketubjörg eru líka engin kennileiti
við sjó á Skaganum, sem væru nógu glögg til að vera landamerki á
landnámi Mána og Eilífs arnar.
Ef litið er á kort af norðanverðum Skaga, þá sést vel, að Ketubjörg
eru hér um bil beint í austur frá ósi Fossár við Kálfshamarsnes. Af
hæsta og jafnframt austasta hólnum á Kembjörgum er mjög víðsýnt.
Þaðan sést alla leið vestur á Strandafjöll vestan Húnaflóa. Landslag er
þannig í heiðinni vestan við Ketubjörg á leið að Fossárósi, að auðvelt
var að sjá elda þar hvern frá öðrum, þótt langt væri á milli þeirra, ef
þeir voru kveiktir á hæðum eða hólum. Ekki er ólíklegt, að Máni hafi
viljað nota sér þessa auðveldu aðstöðu til að helga sér allmikið og
hlunnindaríkt land.
Ég held því, að enginn, sem er kunnugur á þessum slóðum, geti
verið í vafa um, að Mánaþúfa er einmitt hæsti og austasti hóllinn
á Ketubjörgum.
Nafnið Ketubjörg er seinna tilkomið og stafar án efa frá steindrangi
einum í sjónum austan við björgin, er líkist nokkuð gildvaxinni konu
að lögun. Segir þjóðtrúin, að drangur þessi sé tröllkona, er hafi dagað
þarna uppi á leið heim til sín. Björgin eru allhrikaleg og því eðlilegt,
að þjóðtrúin teldi þau tröllabyggð. Sem kunnugt er voru tröllkonur
áður fyrr oft nefndar skessur eða kettur. Sennilega hafa því björgin
áður fyrr verið nefnd Kettubjörg (þ. e. Tröllkonubjörg), en orðið
Ketubjörg er þá aðeins linmæli af hinu eldra nafni.
í fornum heimildum eru björgin aldrei nefnd Ketubjörg. Þá hefur
Mánaþúfu-nafnið verið ráðandi. Það er ekkert einsdæmi, að breytt sé
um örnefni. Nærtækasta dæmið um það er fjallið upp af Reykja-
ströndinni. Það var ætíð nefnt Eilífsfjall fram á 18. öld, en er nú al-
mennt nefnt Tindastóll. Ef til vill stafar þetta af því, að fornrit vor
voru þá flest flutt úr landi eða glötuð og þjóðin var nærri búin að
gleyma fortíð sinni í eymd og vesöld 17. og 18. aldar, en þjóðtrú og
hindurvitni komið í stað vitneskju um glæsta fortíð.
92