Skagfirðingabók - 01.01.1967, Side 114
SKAGFIRÐINGABÓK
Og stórhríðin kom - iðulaus norðan stórhríð, sem engu eirir, eins
og hún getur orðið verst á Norðurlandi. Eftir litla stund huldist
fjallið hríðarmekkinum og veðurhljóðið æstist. Niðurinn í fjallinu
var eins og þungt brimsog með litlum hvíldum á milli. Þegar fjallið
var í þessum ham, var ég hræddur við það, ekki sízt vegna þess, að
ég sá það ekki. Það gerði allt geigvænlegra. Það er betra að sjá
óvininn, sem maður berst við.
Raunar þótti mér vænt um, að ég sá ekki fjallið, því að mér þótti
svo vænt um það, að ég vildi ekki sjá það í þessum ham. Það hlaut
að hafa glatað einhverju af tign sinni, virðuleik og fegurð. Ég treysti
fjallinu. Það mátti ekki bregðast því trausti. Ég vildi ekki viðurkenna
þennan tröllslega persónuleika þess, sem ég þóttist greina í gegnum
veðurdyninn og hríðina. Ég áttaði mig sem sé ekki á því, að fjallið
var alltaf eins. Einnig í norðan stórhríðum. Jafnvel þá hvíldi yfir því
tigin rósemi. Þetta hefði orðið mér ljóst, hefði ég séð í gegnum hríðar-
sortann.
f sunnanhvassviðrum var þetta allt öðruvísi. Þá lét að vísu hátt í
fjallinu, en það var allt annar tónn, miklu mildari og þýðari, þótt
veðurhljóðið væri engu minna. Nú sá ég betur rósemi fjallsins og
kyrrð. Þótt skýin þeyttust með ofsahraða yfir tind þess og allt lauslegt
færi af stað niðri í byggðinni, ríkti sama kyrrðin yfir sjálfu fjallinu.
Það átti margar raddir og ólíkar. Það kunni að leika á ýmsa strengi,
en þó var það stærst og ógleymanlegast í þögninni.
Snjóflóð komu aldrei í Glóðafeyki, en í stórrigningum á sumrin
eða haustin féllu stundum skriður, sem áttu upptök sín uppi undir
fjallsbrún og féllu með miklum skruðningum alla leið niður fyrir
fjallsrætur. Þær gerðu yfirleitt lítið tjón.
Um það bil helmingur af hæð fjallsins eru hrikalegir klettar, gróður-
lausir og gráir. Þeir gáfu fjallinu mestan svip og persónuleika. Þessir
klettar voru mér óþrjótandi athugunarefni. Á öllum árstíðum mátti
sjá lítinn labbakút standa sunnan eða austan við bæinn í Torfmýri,
með hendurnar á kafi í buxnavösunum og horfa til fjallsins. Hann
stóðst aldrei töfra þess. Hann var sjálfur lítill, en fjallið stórt. Hann
leit því upp til þess með lotningu. Það kenndi honum að horfa upp.
Þegar hann var vonsvikinn og hryggur, sótti hann þrek og kjark í
112