Skagfirðingabók - 01.01.1967, Blaðsíða 147
ÞÁTTUR AF GILSBAKKA-JÓNI
Auk þess ólu þau hjón upp dreng, sem Vilhjálmur hét. Var hann
sonur hjónanna Guðmundar Kristjánssonar og Sigríðar Helgadóttur,
sem voru um skeið á Keldulandi. Þótti Jóni mjög vænt um þennan
fósturson sinn, unni honum jafnvel meir en sínum eigin börnum. Var
því þungur harmur að honum kveðinn, þegar Vilhjálmur féll frá í
blóma lífsins, aðeins 17 ára gamall.
Jón missti konu sína eftir 28 ára sambúð. Þremur árum áður höfðu
þau hjón brugðið búi, líklega vegna heilsuleysis Valgerðar, en voru í
húsmennsku á eignarjörð sinni.
Eftir lát Valgerðar var Jón oft langdvölum að heiman við smíðar.
Mun samt alltaf hafa átt heima á Gilsbakka. Var þá Gestur sonur hans
tekinn við búskap á jörðinni.
Þegar Jón var rúmlega sextugur, kvæntist hann í annað sinn.
Seinni kona hans var Aldís Guðnadóttir frá Villinganesi. Var aldurs-
munur þeirra talsverður, því að hún var þá rúmlega tvítug, f. 30. júlí
1867. Var sagt, að Jón hefði sótt allfast að ná því kvonfangi. Fjórum
árum síðar hóf hann aftur búskap á Gilsbakka, en Gestur flutti í
Stekkjarfleti sama ár.*
Aldís var tæplega í meðallagi á hæð, fríðleikskona, ráðdeildarsöm
og nýtin, en þó stórgjöful. Hún var harðdugleg og féll aldrei verk úr
hendi. Krafðist þess sama af öðrum. Stóð hún við raksmr í hvaða
veðri sem var. Tóskaparkona var hún mikil og oft langdvölum burtu
við tóvinnu. Hún varð fyrir því áfalli um þrítugt að detta og
meiða sig í mjöðm. Var ekki leitað læknis fyrr en um seinan.
Var hún mjög fötluð upp frá því, en lét það ekki aftra ferðum sínum,
svo að á gamals aldri vílaði hún ekki fyrir sér að fara yfir Merkigilið
á Einstig,** að vísu með nokkurri aðstoð, þegar Hjörleifur sonur
hennar fékk lánað engi fyrir framan gilið. Má nærri geta, að búhyggja
Aldísar og dugnaður hafi komið í góðar þarfir, þar sem Jón stundaði
smíðar jöfnum höndum við búskapinn eða meir. Hann auk þess orð-
inn gamall maður.
* Algengara mál er „Stekkjarflatir" og oftast svo í ritum. „Stekkjarfletir"
er hins vegar málvenja þeirra Austurdælinga (S. B.).
* * Gönguleið yfir gilið, brött og klettótt.
10
145