Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 4
3
Ritið 3/2013, bls. 3–13
Ímyndir, sjálfsmyndir,
þvermenningarleg yfirfærsla
Ímyndir, sjálfsmyndasköpun, varðveisla íslensks menningararfs og þver-
menningarleg yfirfærsla eru áleitin efni í greinunum sem valdar voru í
þetta sérhefti Ritsins um Vesturheimsferðir Íslendinga í nýju ljósi. Það er þó
aðeins þriðja alda íslenskra útflytjenda til Ameríku eftir miðja nítjándu öld
sem er nafngreind með þeim hætti að ætla mætti að ekkert rof eða riðlun
hafi átt sér stað við búferlaflutning þeirra til annarar heimsálfu – þeir hafi
áfram verið Íslendingar. Fyrstu „vesturfararnir“ kölluðust Utah-farar eða
mormónar, þá komu Brasilíufarar, en þegar Íslendingar fluttust unnvörp-
um til Bandaríkjanna og Kanada brá svo við að þeir drógu ekki nafn sitt
af nýja heimalandinu – urðu ekki Bandaríkjafarar og Kanadafarar – heldur
varð skyndileg útvíkkun á þjóðvitund Íslendinga og Ísland sjálft gekk í
endurnýjun lífdaga: það urðu til Vestur-Íslendingar og Nýja Ísland.1
Þessar nafngiftir virðast renna stoðum undir nokkrar af lykilhugmynd-
um Benedicts Anderson í bókinni Imagined Communities. Anderson bendir
á að sögur um þjóðir og þjóðerni hafi orðið svo veigamikill þáttur í sjálfs-
mynd einstaklinga á síðustu öldum að menn hafi verið reiðubúnir til að
fórna lífi sínu fyrir aðildina að því bræðralagi. Hann telur að hugmyndir
um sjálfstæðar þjóðir hafi komið fram í kjölfar nýlendureksturs Evrópubúa
1 Ekki er vitað með vissu hversu margir fluttu úr landi en talið er að fjöldaflutningum
linni við upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar. Rannsóknir Júníusar H. Kristinssonar
og Helga Skúla Kjartanssonar sýndu að út frá handbærum gögnum var skjalfest
að 14.268 eintaklingar hefðu flust héðan, en eins og Sveinbjörn Rafnsson bendir
á í inngangi að Vesturfaraskrá Júníusar þá er vitað að alls konar vanhöld voru á
skráningu. Sjá Júníus H. Kristinsson, Vesturfaraskrá 1870–1914, Reykjavík: Sagn-
fræðistofnun Háskóla Íslands, 1983. Sveinbjörn segir: „Útflytjendurnir hafa verið
enn fleiri, og gætu þeir jafnvel skipt þúsundum sem enn vantar“ (bls. IX). Stefán
Einarsson telur að um 25 þúsund manns hafi flust varanlegum búferlum til Norður-
Ameríku en þar af hafi fjórðungur farið til Bandaríkjanna, sjá greinargerð hans um
íslenska innflytjendur í bókinni One America, 3. útg., ritstj. Francis J. Brown og
Joseph S. Roueck, New York: Prentice-Hall, 1952, bls. 335. Sjá einnig Helgi Skúli
Kjartansson og Steinþór Heiðarsson, Framtíð handan hafs: Vesturfarir frá Íslandi
1870–1914, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003, bls. 83–104.