Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Síða 52
51
samsama sig þeim. Þorsteinn Þ. Þorsteinsson bendir einmitt á það í bók
sinni Æfintýrið frá Íslandi til Brasilíu að margir af Brasilíuförunum hafi lært
þýsku áður en þeir lærðu portúgölsku.
Hvað afkomendurna í samtímanum varðar virðist þessu þó háttað á
annan veg. Jeffrey Lesser telur að uppruni fólks í Brasilíu gegni hlutverki
einskonar stimpils sem meðal annars er notaður til að öðlast sess (e. status) í
samfélaginu.85 Út frá hugmyndum Dávila og Lessers er áhugavert að skoða
hvernig íslenskur uppruni markar ákveðna stöðu í brasilísku samfélagi á
okkar tímum. Hinn sextugi Anderson vísaði í viðtali beint til mikilvæg-
is þeirrar stöðu sem íslensk sjálfsmynd veitir aðgang að með orðunum
„ef það væri ekki svona sérstakt að vera afkomandi Íslendinga mundi ég
líklega ekki hafa mikinn áhuga á uppruna mínum“. Á svipaðan hátt útskýr-
ir Luciano, sem er á þrítugsaldri, að þegar hann er innan um vini sína sé
það sérstaklega skemmtilegt að vera sá sérstaki frá Íslandi, því allir aðrir
reki ættir sínar til Þýskalands og Ítalíu. Jeffrey Lesser hefur bent á hvernig
þjóðernislegur uppruni utan Brasilíu veitir aðgang að ákveðnum menn-
ingarauði.86 Estelle talar einmitt líka um hversu sérstakt það þyki í Brasilíu
að vera af íslenskum uppruna. Hún er þriggja barna móðir og af íslenskum
uppruna í fjórða ættlið og talar einkum um að sér hafi fundist mikilvægt
að börn sín fengju ættarnafn föður hennar, sem var af íslenskum uppruna,
þótt slíkt sé ekki ríkjandi hefð í Brasilíu. Estelle finnst mikilvægt að börnin
hafi þessa tengingu við Ísland því það þyki sérstakt í brasilísku samfélagi
að eiga íslenska forfeður. Viðmælendur nefndu ekki beint litarhátt sem
áhrifavald, en þó má álykta út frá víðara samhengi brasilísks samfélags að
mikilvægt hafi verið að tengja sig betur við hvítan litarhátt, burtséð frá því
hvort slíkt er gert meðvitað eða ekki.
Danski mannfræðingurinn Karen Fog olwig segir að þrá eftir einstakri
arfleifð sé í auknari mæli áhrifaþáttur á það hvernig fortíðin er túlkuð í
samtímanum87 og Richard Zumkahawala-Cook telur að frásagnir um dul-
arfulla og hetjulega fortíð geti skapað ákveðin forréttindi.88 Hvað varðar
stöðu sem fylgir uppruna kemur það áberandi fram hjá Marco og Paulo,
85 Sjá Jeffrey Lesser, Negotiating National Identity. Immigrants, Minorities, and the
Struggle for Ethnicity in Brazil, Durham: Duke University Press, 1999; Jeffrey
Lesser. Immigration, Ethnicity, and National Identity in Brazil.
86 Jeffrey Lesser, Immigration, Ethnicity, and National Identity in Brazil, bls. 3.
87 Karen Fog olwig, „The Burden of Heritage. Claiming a Place for a West Indian
Culture“, American Ethnologist 26:2 (1999), bls. 370–388.
88 Richard Zumkahawala-Cook, „The Mark of Scottish America“, bls. 112.
„VIð VILJUM BARA VITA HVAðAN VIð ERUM oG HVER VIð ERUM“