Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Side 77
76
bein skilda að ráða þá af dögum“, skrifaði Sigurður í nóvember 1917, þá
búinn að vera nokkra mánuði í Evrópu.65
Augljósar áherslubreytingar urðu í bréfaskrifum Sigurðar eftir að hann
skráði sig í herinn. Auðmenn birtust ekki lengur sem andstæðingar lág-
launamannsins, heldur voru það Þjóðverjar sem skipuðu sæti andstæðings-
ins gagnvart hermanninum og Vesturheimi. Í báðum tilvikum var Sigurður
bundinn við ákveðin orðræðukerfi sem mótuðu sjálfsmyndir hans í takt við
ríkjandi hugmyndir. Annars vegar fólust þær í því að vera innflytjandi í
láglaunavinnu og hins vegar hermaður tiltekins ríkis.
Ekki er þó þar með sagt að Sigurður hafi hætt að upplifa stöðu sína
sem óljósa eða að hann væri nú orðinn einn af hinum. Hvernig sem kring-
umstæðurnar voru sem mótuðu skrif hans um sjálfan sig, aðra og þá upp-
lifun sem hann bar í brjósti var Sigurður einnig bundinn þeim veruleika
að skrifa móður sinni og halda uppi traustu sambandi við gamla heima-
landið. Þegar Sigurður var orðinn hermaður einkenndust þau skrif aðal-
lega af hugmyndum um öryggi og karlmennsku, en einnig ákveðið land-
leysi. Einu gildir hversu ljót mynd er dregin upp af andstæðingunum eða
hvernig aðstæðunum er lýst í bréfunum, ávallt átti Sigurður að hafa verið
öruggur, enda í „rétta“ liðinu. „Það er engin hætta á ferðum, óvinurinn er
hræddur við Canadamenn, þeir þora ekki að ráðast á okkur, þeir hafa beðið
ósigur við Canadamenn hvar sem þeir hafa mætt þeim“, sagði Sigurður í
nóvember 1918.66
Yfirleitt skrifaði hann ekki um sjálfan sig sem einn Kanadamanna og í
bréfunum er sjaldan minnst á félaga Sigurðar í hernum. Herinn var skip-
aður fólki úr mörgum áttum. 107. herdeildin, sem Sigurður var um tíma
hluti af, var t.a.m. að mestu skipuð mönnum af indíánaættum.67 Með því
að ganga í herinn gengust hermenn undir skyldur sem m.a. fólust í því
að bréf þeirra voru ritskoðuð. ætlunin með því var fyrst og fremst að
stjórna flæði upplýsinga frá vígstöðvunum og hafa áhrif á það sem her-
menn skrifuðu í bréfin. Hermönnum var bannað að skrifa um nokkuð
sem gæti gagnast andstæðingnum í stríðinu, s.s. staðsetningu herdeilda,
fyrirhugaðar aðgerðir, andlegt og líkamlegt ástand félaga sinna o.s.frv.
65 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 1. nóvember 1917. Sjá svipaðar
lýsingar í fleiri bréfum, t.d. 23. apríl 1918 og í ódagsettu bréfi, líklega skrifað 2.
nóvember 1918.
66 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 7. nóvember 1918.
67 Steven A. Bell, „The 107th ,Timber Wolf‘ Battalion at Hill 70“, Canadian Military
History 5:1 (1996), bls. 73–78, hér bls. 73.
óLAfuR ARnAR svEinsson