Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Page 78
77
Hermenn máttu í raun ekkert neikvætt skrifa um þátttöku sína í stríðinu.
Í mörgum bréfum var því krotað yfir orð og setningar sem ekki komust í
gegnum ritskoðun eða þau einfaldlega skorin út.68 Ritskoðunin hafði ekki
aðeins þann tilgang að verja herdeildirnar og hafa stjórn á hermönnunum,
heldur var megintilgangurinn að móta viðhorf fólks heima fyrir þannig að
þátttaka Kanada í styrjöldinni fengi ekki á sig neikvæða ímynd.
Eflaust hefur ritskoðun haft áhrif á það að Sigurður skrifaði nánast
aldrei um félaga sína í hernum, nema þegar talað var um öryggi gagnvart
andstæðingnum. Í sendibréfum Sigurðar sjást glögg merki þess að hann
hefur verið meðvitaður um eftirlit með bréfaskrifunum, en í herdeildum
Sigurðar voru nokkrir yfirmanna hans íslenskir.69 Í mörgum bréfum hefur
Sigurður orð á þeim skorðum sem honum eru settar hvað fréttaflutning
varðar enda sé hann háður ritskoðun.70 „Jeg hefi engar frjettir, það er að
segja jeg má ekkert segja, það ber þó margt við nú á dögum enn opt má
satt kyrt liggja, það verður að býða þangað til jeg kem heim til þín“, sagði
Sigurður ennfremur.71
Þrátt fyrir reglur um eftirlit yfirmanna með bréfaskrifum birtast nokk-
uð afdráttarlausar lýsingar á ástandi mála í hernum. Mataræði var ekki
merkilegt, hreinlæti ábótavant og bæði andlegt og líkamlegt ástand her-
mannanna bágborið. Þessi slæmi aðbúnaður gegndi ákveðnum tilgangi
að sögn Sigurðar. „[Þ]etta er allt gjört til þess að venja okkur við, til þess
að gjöra okkur harða, gjöra okkur að hermönnum, hermaðurinn má ekki
eiga gott, hann má ekki fá góðan mat, hann á að fá lítinn mat, og óbreyttan
sama matinn dag eptir dag“.72 Þessi skoðun var vitaskuld ekki í samræmi
við stefnu yfirvalda, né heldur sú hugmynd að hermaðurinn yrði betri,
grimmari eða hraustari eftir því sem aðbúnaður hans væri verri, eins og
Sigurður hélt fram. Þessi dæmi sýna ákveðna tvíræðni í takmörkunum
Sigurðar. Á sama tíma og hann var háður eftirliti yfirmanna sinna var
Sigurður bundinn eigin ritskoðun, þar sem hann reyndi að telja móður
sinni trú um að öryggi sínu væri ekki ógnað og að erfiðar aðstæður gerðu
hermanninn betri í sínu starfi.
68 Keshen, Propaganda and Censorship During Canada’s Great War, bls. 154–155.
69 Minningarrit íslenzkra hermanna 1914–1918, Winnipeg: Félagið Jón Sigurðsson,
I.o.D.E., 591 R. of C., 1923, bls. 89, 148 og 177.
70 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 16. júní 1917; 1. júlí 1917; ódagsett
bréf, þar sem vantar hluta, líklega skrifað 7. október 1917; 7. nóvember 1917 og
11. febrúar 1918.
71 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 1. nóvember 1917.
72 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 27. maí 1918.
„RIFFILLINN ER HINN BESTI VINUR HERMANNSINS“