Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 118
117
Ég vona að þú verðir sem lengst ritstjóri blaðsins. Þinn einlægur Lúter A
Christopherson. Bredenbury, Sask“.41 Eins og áður er fram komið má lesa
margt um kjör barnanna úr bréfum þeirra. Barn skrifar og segir að pabbi
sinn sé að kenna þeim systkinum íslensku því hann sé atvinnulaus í bili.
Bréfritarinn á þrjá bræður og þrjár systur, elsta barnið er fjórtán ára, það
yngsta fimm ára. Sjálfur er hann þrettán ára. Hann segir:
Við komum til þessa lands 1926, þá var ég á fjórða árinu; þá gátum
við talað íslenzku, en nú tölum við altaf ensku, því hér í kringum
okkur eru allir enskir og franskir nema bróðir pabba míns. Ég
vildi óska að Baldursbrá kæmi á hverju kvöldi. Þinn Jacob Hurley
Johnson. Tessier, Sask.42
Það verður æ augljósara að baráttan fyrir því að halda tungumálinu sem
uppistöðu íslensks þjóðernis í Vesturheimi er töpuð.
Þegar upp er staðið
Sektarkenndin yfir að geta ekki talað tungumál eldra fólks í fjölskyld-
unni sem birtist í bréfum barnanna sýnir ekki aðeins klofning þeirra milli
hins íslenska uppruna og nýja landsins eins og hjá þeim fullorðnu, heldur
er gerð til þeirra krafa um tryggð við menningu foreldra, afa og ömmu
og annarra ástvina innan fjölskyldunnar. oft var það ekki einfalt ef for-
eldrarnir gátu ekki samþykkt sína nýju ættleiðingarfjölskyldu og fóstruna
Kanada, iðruðust þess að hafa yfirgefið sitt gamla heimili, Ísland, og fannst
bæði að þeir hefðu svikið það og verið sviknir af því. Tungumálið, sem
enginn skildi annar en Íslendingarnir, sameinaði þá sem hóp og þjóð og
virkaði eins og skjaldborg gegn hörðum heimi. En skjaldborgin einangr-
aði þá líka og rýrði möguleika þeirra á að fara út, aðlagast og gera það gott
í nýja landinu, sem var afar tortryggið gagnvart innflytjendum. Íslensku
nöfnin afhjúpuðu strax að hér var framandi þjóð á ferð.43 Vestur-íslenska
goðsagan um að hinn stolti menningararfur og frelsisþrá yrðu til þess að
Íslendingar sköruðu fram úr í nýja landinu eins og því gamla reyndist létt
í vasa fyrir fátæka innflytjendur og til hvers hafði þetta þá allt verið? Við
hvaða arfi áttu börnin að taka?
41 Baldursbrá 1:7 (1934–1935), bls. 4.
42 Baldursbrá 1:15 (1934–1935), bls. 3.
43 Kristjana Gunnars, „Laura Goodman Salverson’s Confessions of a Divided Self“,
bls. 151.
„VIð HÉRNA Í VESTRINU“