Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Qupperneq 74
73
(e. hierarchy). Vesturfarar frá Íslandi tóku virkan þátt í þeirri orðræðu,
beggja vegna sjálfsmyndasköpunarinnar, þ.e. með því að búa sér til sjálfs-
myndir og veita öðrum auðkenni.
Þegar rýnt er í texta Sigurðar Johnsen kemur í ljós að þar er heldur lítið
um skrif um önnur þjóðarbrot, a.m.k. fram að því að hann gekk í herinn.
Um tíma leigði hann herbergi hjá ungverskum hjónum í Bandaríkjunum,
bjó síðar hjá danskri konu og starfaði í verksmiðju með manni frá Armeníu.
Skoðanir Sigurðar á þessu fólki eða öðrum hópum koma aldrei fram. Það
þýðir auðvitað ekki að hann hafi ekki búið yfir þeim. Þær hafa einfaldlega
ekki þótt nógu merkilegar til að færa í letur í sendibréfi til móður hans.
Ásmundur, bróðir hans, skrifaði móður þeirra óhikað lýsingar á öðrum
hópum. Innfæddum lýsti hann sem afar drykkfelldum mönnum sem lægju
oft sofandi úti á víðavangi eftir að krár lokuðu. „Heima þykir manni gaman
að fá sjer í staup en hjer hefur maður viðbjóð á því“, skrifaði Ásmundur og
lýsa þau orð ágætlega viðhorfi hans til fólks af indíánaættum.51 Þrátt fyrir
það má einnig greina ákveðna varfærni í lýsingum Ásmundar á fólki af
öðru þjóðerni. Hann leitaði m.a. ráða hjá móður sinni vegna stúlku af
frönskum og skoskum ættum sem hann var farinn að fella hug til, og velti
því fyrir sér hvort hann ætti að halda vinskapinn eða slíta honum þar sem
hún væri af „framandi þjóðflokki“.52
Sigurður hefur sjálfsagt einnig leitað ráða hjá móður sinni um samband
sitt við konur, sérstaklega ef þær voru erlendar. Þegar hann skráði sig í
kana díska herinn vorið 1916 kvaðst hann hafa fengið langt bréf frá stúlk-
unni sem hann hafði áður sagt móður sinni frá. Stúlkan hafði beðið hann
um að hætta við að ganga í herinn en Sigurður hafði setið við sinn keip.53
Þótt Sigurður hafi ekki lýst skoðunum sínum á öðrum þjóðarbrotum í
Norður-Ameríku fór hann ekki í felur með skoðanir sínar á öðrum mál-
efnum. Í bréfunum má lesa ákveðnar skoðanir hans á sósíalisma og kristni.
Fljótlega eftir komuna til Bandaríkjanna árið 1904 virðist Sigurður hafa
orðið fyrir sterkum áhrifum sósíalískra dagblaða á borð við The New York
Call og hins norska Gaa Paa!, sem hann sendi móður sinni af og til, en
einnig blandaði hann saman pólitískum skoðunum sínum og trúarlegum.
„Ef maður er socialist, það er að segja góður socialist, vill maður að öllum
gangi vel, að öllum sje sýnt rjettlæti, enn engum ranglæti. Jesus Kristur var
51 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.1, Ásmundur Johnsen, 30. janúar 1910.
52 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.1, Ásmundur Johnsen, 7. desember 1913.
53 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 8. apríl 1916.
„RIFFILLINN ER HINN BESTI VINUR HERMANNSINS“